131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:03]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur framkvæmdanefnd um einkavæðingu unnið að undirbúningi að sölu á hlutabréfum ríkisins í Landssíma Íslands hf. Við undirbúning hefur nefndin notið ráðgjafar fjármálafyrirtækisins Morgans Stanleys í Lundúnum. Fyrir liggja nú tillögur nefndarinnar og hefur ráðherranefnd um einkavæðingu tekið ákvörðun um fyrirkomulag sölu á Símanum á grundvelli þessara tillagna sem ríkisstjórnin hefur staðfest fyrir sitt leyti.

Það hefur verið ákveðið að selja eftirstandandi hlut ríkisins, þ.e. tæplega 99%, í Símanum í einu og heilu lagi einum hóp kjölfestufjárfesta.

Það sem einkum hefur verið til umræðu, m.a. hér á Alþingi, að undanförnu er sú spurning hvort hluta af Símanum eigi að undanskilja, þ.e. hið svokallaða grunnnet. Ríkisstjórnin hefur lagst gegn því á þeim forsendum að hvergi í Evrópu hafi grunnnet verið aðskilið við einkavæðingu fjarskiptafyrirtækja og lagaumhverfið á Evrópska efnahagssvæðinu gerir ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta í fjarskiptageiranum. Nú síðast hefur fallið um það úrskurður, og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sent sænskum stjórnvöldum rökstutt álit þess efnis að Svíar uppfylli ekki skuldbindingar sínar samkvæmt tilskipun sem fjallar einmitt um samkeppni á fjarskiptamarkaði. Sú tilskipun gildir einnig hér á landi og Ísland er háð sömu skilmálum og Svíþjóð í þessu sambandi, og það er mjög erfitt að sjá hvernig væri unnt með einhverjum vitrænum hætti á grundvelli þessarar tilskipunar að aðskilja grunnnet Símans frá fyrirtækinu. Ef um slíkan aðskilnað væri að ræða mundi hann væntanlega byggja á þeirri röksemd að dreifikerfið væri til frjálsra afnota fyrir alla rekstraraðila. Það liggur fyrir að allir rekstraraðilar þurfa samkvæmt þessari tilskipun að geta sett upp sitt eigið dreifikerfi og það er ekki hægt að skylda þá til þess að skipta við eitt dreifikerfisfyrirtæki. Það er ekki hægt að veita neinu fyrirtæki einhvern einkarétt eða sérréttindi á þessu sviði.

Fjarskiptalögin gefa skýr fyrirmæli um aðgang samkeppnisaðila inn á grunnnet markaðsráðandi aðila og það liggur fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun hafa úrræði til inngripa ef ekki er farið að lögum í þessu sambandi.

Sala bréfa til kjölfestufjárfestis verður hins vegar háð eftirfarandi skilyrðum:

1. Að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar eignist stærri hlut í Símanum eða í félagi sem stofnað er til kaupa á hlut ríkisins í Símanum en 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins á aðallista í Kauphöll.

2. Að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minni en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðið almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007 og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni slíkri sölu.

3. Að Síminn verði skráður á aðallista Kauphallar hér á landi að uppfylltum skilyrðum Kauphallarinnar samhliða sölu til almennings og annarra fjárfesta og innlausnarrétti verði ekki beitt gagnvart núverandi hluthöfum í Símanum fram að skráningu félagsins á aðallista Kauphallarinnar.

4. Að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann hér á landi.

Með þessu fyrirkomulagi telur ríkisstjórnin að ýmis almenn og sértæk markmið við sölu á ríkiseignum náist og er sölutilhögunin í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2003 og verklagsreglur framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Markmið ríkisstjórnarinnar eru eftirfarandi:

1. Að sem hæst verð fáist fyrir eignarhlut ríkisins og staða ríkissjóðs þannig enn frekar styrkt.

2. Að fyrirtækið verði áfram rekið sem sjálfstætt íslenskt félag, skráð hérlendis.

3. Að fyrirtækið verði áfram öflugt þjónustufyrirtæki sem stuðli að aukinni samkeppni og skilvirkni á fjarskiptamarkaði.

4. Að fyrirtækið haldi uppi sambærilegri þjónustu á fjarskiptasviði í þéttbýli og dreifbýli og það veitir í dag, m.a. með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun mannvirkja.

5. Að efla innlendan hlutabréfamarkað með skráningu fyrirtækisins á aðallista í Kauphöll hér á landi fyrir árslok 2007 og að almenningi og öðrum fjárfestum verði á ný gefinn kostur á að eignast ekki minna en 30% hlut í félaginu fyrir árslok árið 2007. Það er stefnt að því að ljúka söluferlinu í júlí næstkomandi.

Í tengslum við þetta mál er gert ráð fyrir því að ráðstafa hluta af söluandvirði fyrirtækisins til uppbyggingar á fjarskiptaþjónustu, ekki síst á landsbyggðinni. Í drögum að fjarskiptaáætlun, sem hefur verið afgreidd frá ríkisstjórn til þingflokka og verður kynnt hér á Alþingi væntanlega seinna í dag eða á morgun, verða sett fram markmið um margvíslega uppbyggingu í þessu tilliti.

Meðal helstu markmiða í þessari áætlun eru farsamband á helstu stofnvegum og ferðamannastöðum, og áframhaldandi háhraðavæðing landsbyggðarinnar. Með tilliti til þess er gert ráð fyrir því að settur verði á fót sérstakur fjarskiptasjóður sem stuðli að uppbyggingu fjarskiptaþjónustu, ekki síst með þau markmið í huga að koma á fullnægjandi tengingum á grundvelli þessarar fjarskiptaáætlunar. Fjárhæðir hafa enn ekki verið ákveðnar í þessu sambandi en verða endanlega ákvarðaðar í tengslum við sölu Símans þegar þar að kemur.

Gert er ráð fyrir því að þegar tilboð hafa komið verði sérstaklega horft til verðs sem boðið er í fyrirtækið en jafnframt höfð hliðsjón af fjárhagslegum styrk og lýsingu á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda- og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans, varðandi starfsmenn fyrirtækisins og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin og annarra viðeigandi þátta en framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun nánar útfæra slík atriði á næstunni þannig að þau liggi fyrir þegar tilboð berast.

Herra forseti. Ég taldi rétt að gera grein fyrir þessu máli hér á Alþingi. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun leggja fram skýrslu um málið og gera fjölmiðlum grein fyrir vinnu sinni í dag. Ráðherranefnd um einkavæðingu hefur í öllu farið að ráðum framkvæmdanefndarinnar í þessu máli sem byggir álit sitt að verulegu leyti á þeirri ráðgjöf sem nefndin hefur fengið frá hinu þekkta fjármálafyrirtæki Morgan Stanley. Ég vænti þess að á grundvelli þessara tillagna og þessarar ákvörðunar muni málið fá farsælan endi á næstu mánuðum og vonandi að söluferlinu ljúki í júlímánuði næstkomandi.