131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[21:53]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Þetta er orðin löng umræða um frumvarp sem gengur út á að leggja Þróunarsjóð sjávarútvegsins niður. Umræðan er aðallega þetta löng vegna þess að okkur þingmönnum sem tekið höfum þátt í umræðunni blöskrar hvernig með efni frumvarpsins á að hunsa mjög skýran vilja Alþingis til að sjóðurinn taki einhvern þátt í að vernda gömul skip og báta.

Saga þróunarsjóðsins er löng og búið að fara nokkuð vel yfir hana hér. Til upprifjunar var náttúrlega nokkuð mörgum sjóðum steypt í þróunarsjóðinn. Hann varð ekki til fullskapaður einn og sér, heldur byrjaði þetta með lögum um að stofnaður yrði Úreldingarsjóður fiskiskipa. Það var afgreitt og með því frumvarpi var lagt til að stofnaður yrði sjóður sem hefði það hlutverk að stuðla að fækkun fiskiskipa. Því hlutverki átti sjóðurinn að sinna með tvennum hætti. Í fyrsta lagi átti Úreldingarsjóður fiskiskipa að kaupa fiskiskip með aflaheimildum og í öðru lagi átti hann að greiða úreldingarstyrki sem gátu numið allt að 10% af húftryggingarverðmæti fiskiskipa.

Við afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu vorið 1990 voru gerðar verulegar breytingar á efni frumvarpsins og nafni sjóðsins, Úreldingarsjóði fiskiskipa, breytt í Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Sjóðnum var úthlutað aflaheimildum og þeim átti sjóðurinn að ráðstafa með tvennum hætti. Hann átti í fyrsta lagi að framselja allt að helmingi aflaheimilda til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum sem stæðu höllum fæti og í öðru lagi skyldi hann framselja þetta með öðru móti.

Sett voru lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Í 1. gr. þeirra laga sagði, með leyfi forseta:

„Stofna skal sjóð er nefnist Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins. Sjóðurinn skal stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð með því að laga stærð og afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. Í þessu skyni skal sjóðurinn veita styrki til úreldingar fiskiskipa, enda sé tryggt að í stað hinna úreltu skipa komi ekki ný skip í fiskiskipaflotann eða að afkastageta flotans aukist með öðrum hætti.“

Þarna erum við farin að þekkja það hlutverk sem þróunarsjóðurinn fékk, að taka skipin og koma í veg fyrir að þeim yrði haldið til veiða með öllum mögulegum ráðum. Þróunarsjóðurinn tók við öllum eignum og skuldum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins með lögum nr. 65/1992. Hann tók einnig við eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja.

Eins og sjá má af upptalningunni eru nokkuð margir foreldrar að þróunarsjóðnum og þeir foreldrar hafa þá sögu að hafa stuðlað að því að eyða fiskiskipum. Þess vegna höfum við lagt á það áherslu að ekki sé óeðlilegt að sjóðurinn taki þátt í að vernda þau skip sem þó eru eftir, enda hefur Alþingi lýst mjög skýrum vilja sínum til þess.

Veltum því aðeins fyrir okkur augnablik, herra forseti, hvaða viðbrögð það mundi vekja í þjóðfélaginu ef stofnaður yrði sjóður til að úrelda og eyða gömlu íbúðarhúsnæði sem teldist ekki við hæfi lengur. Það væri orðið svo mikið framboð af íbúðarhúsnæði á markaðnum að taka þyrfti gömul hús og eyða þeim og settur yrði á laggirnar sjóður til þess. Ég er hræddur um að það mundi heyrast hljóð úr horni ef slíkt ætti að gera. Nægir að minna á umræðuna um Laugaveginn og það sem verið er að tala um að gera þar. Ég held að við höfum ekki sömu innbyggðu varnirnar gagnvart því að eyðileggja gömul skip eða gamlar sjóminjar eins og við höfum gagnvart húsum sem á að fara að eyða eða rífa. Það þarf að verða breyting á því. Ég held að flutningsmenn þingsályktunartillögunnar hafi ætlað að að henni samþykktri gætu þeir treyst því og trúað að fjármunir kæmu til að gera átak í því að vernda gömul skip.

Í ræðum mínum fyrr í dag kallaði ég eftir afstöðu hv. stjórnarþingmanna. Það er kannski rétt að halda því til haga að hvorki þeir hv. stjórnarþingmenn sem greiddu þingsályktunartillögunni sem við höfum rætt í allan dag atkvæði sitt á sínum tíma né aðrir hv. stjórnarþingmenn hafa tekið þátt í umræðunni um þetta og sagt hvaða hug þeir bera til málsins.

Ég veit ekki alveg hvað á að lesa út úr því. Ég vona að það viti á gott og þeir samþykki breytingartillögu minni hlutans sem kemur til atkvæðagreiðslu að lokinni þessari umræðu, á morgun eða síðar í vikunni, að það að þeir komi ekki í umræðuna þýði að þeir séu að velta þessu fyrir sér í fullri alvöru, vilja ekki gefa upp afstöðu í umræðunni á þessum tíma og muni mæta til atkvæðagreiðslu og greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni, vonandi sömu sannfæringu og varð til þess að þeir greiddu þingsályktunartillögunni atkvæði á sínum tíma.

Ég tel fullreynt að reyna að fá hæstv. sjávarútvegsráðherra til að uppfylla vilja Alþingis í málinu. Ég held að við sem flytjum breytingartillöguna við frumvarpið verðum að treysta á einstaka þingmenn, að einstakir þingmenn hafi hryggstykki í bakinu til að taka ákvarðanir fyrir sjálfan sig og greiða breytingartillögu okkar atkvæði.

Ég ætla ekki að gefa mér neitt fyrir fram í því, en vona það besta. Ég vil alltaf trúa á það besta í mannskepnunni og trúi því ekki fyrr en ég tek á að vilji Alþingis til að vernda gömul skip og báta með hluta af þeim fjármunum sem til eru í þróunarsjóði verði hunsaður algjörlega, eins og lítur út fyrir við þessa umræðu.

Virðulegi forseti. Málið í hnotskurn, eins og það blasir við eftir þessa umræðu og þau svör sem við höfum fengið frá sjávarútvegsráðherra því að hann hélt eina ræðu fyrr í umræðunni, er það að hæstv. sjávarútvegsráðherra vill ná öllum fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til sín til að sinna þeim verkum sem heyra undir ráðuneyti hans. Hann vill ekki sjá á eftir þessum fjármunum til varðveislu gamalla skipa og báta, það sé höfuðverkur annarra hæstv. ráðherra að afla fjár til þess. Hann ætlar sér að taka alla þá peninga sem þarna eru, þrátt fyrir vilja Alþingis, og passa að þeir fari algjörlega óskiptir og að öllu leyti í verkefni á vegum sjávarútvegsráðuneytisins.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki verið hér, hún er með fjarvistarleyfi og lítið við því að segja, enda átti maður kannski ekki von á að umræðan beindist í þann farveg að hæstv. sjávarútvegsráðherra segði með jafnskýrum hætti að það væri höfuðverkur hæstv. menntamálaráðherra að sjá um að fá fjármuni til fylgja eftir þeirri þingsályktun sem hér hefur verið rætt mikið um.

Það liggur líka, sýnist mér, kristaltært fyrir eftir þá umræðu sem við höfum átt hér í allan dag og fram á kvöld að hæstv. menntamálaráðherra hefur í raun og veru ekkert borið sig eftir þessum fjármunum þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt að hluti af fjármunum þróunarsjóðsins færi í þetta verk sem er þó á verksviði hæstv. menntamálaráðherra. Það getur vel verið að einhver nefnd á hennar vegum sé búin að skila tillögum um hvernig á standa að því að vernda gömul skip og báta en núna, áður en hægt verður að hrinda því góða verki af stað, ætlar hæstv. sjávarútvegsráðherra að sjá um að ekki verði eftir neinir fjármunir þarna til að sinna því.

Ein spurning sem ég bar upp fyrr í dag og hefði hug á að endurtaka, virðulegi forseti, og vonast til að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi einhver svör við, er hvort menn geri sér nú betur grein fyrir því en fyrir einhverjum vikum síðan, hver skuldlaus eign sjóðsins gæti orðið við það uppgjör sem nú er í gangi. Hversu mikið yfir 400 milljónir eignir sjóðsins nema við það uppgjör, þannig að við getum við atkvæðagreiðslu um málið a.m.k. á einhvern hátt reynt að gera hv. þingmönnum, sem vilja nota part af þessum fjármunum til að vernda gömul skip og báta, grein fyrir um hvaða fjármuni er að tefla. Í raun vitum við það ekki á þessari stundu og því hefði að mörgu leyti verið skynsamlegra að fresta endanlegri afgreiðslu á málinu þar til menn vissu um hvaða fjármuni væri að ræða, en eins og komið hefur fram er enginn vilji til þess.

Að endingu langar mig að spyrja hæstv. forseta hvort honum hafi gefist tóm til að lesa þingsályktunina sem við höfum verið að ræða um í dag, þingsályktunina um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í að fjármagna varðveislu gamalla skipa og báta. Tilgangur minn með þessari spurningu til virðulegs forseta er að reyna nú í lok umræðunnar að treysta á reynslu hans af þingstörfum til að segja okkur hvort hann telji ekki að Alþingi hafi samþykkt kvöð á Þróunarsjóð sjávarútvegsins með samþykkt þessarar þingsályktunar og hvort hann geti þá ekki verið sammála okkur þingmönnum sem höfum talað hér í dag, í ljósi þessarar þingsályktunartillögu og þeirrar afgreiðslu sem hún fékk á Alþingi, að það sé í raun óhæfa að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins án þess að sinna þeirri kvöð sem umrædd þingsályktun lagði á sjóðinn.