131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst oftast nær mjög gaman að ræða við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann er mjög afdráttarlaus í skoðunum sínum og mjög hægri sinnaður og oft finnst mér það gaman. En ég nenni ekki að fara í umræðu um laun lækna mitt í skolpræsisumræðunni.

Við tölum um skolpræsi og um einokun sem til verður í sveitarfélagi. Ef einkaaðili, hvort sem það er hópur lækna eða einhverjir aðrir, tekur að sér að byggja holræsi og leigja sveitarfélaginu það og eiga holræsið erum við að tala um fullkomna einokun á viðkomandi framkvæmd gagnvart sveitarfélaginu. Þetta eru ekki einhver viðskipti. Þetta er ekki sala á einhverju til einhvers sem ræður hvort hann kaupir það. Þetta er einokun og sá sem þarf að vera viðskiptaaðili á engra annarra kosta völ. Um það snýst málið.