131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[17:54]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum Um fundarstjórn forseta vegna málsins sem hæstv. forseti var að taka af dagskrá, um skaðabótalög. Ég vil vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur þingmannamál frá mér um sama efni, reyndar um endurskoðun skaðabótalaga. Það fjallar einmitt um það sem fram kemur frumvarpi því sem var verið að taka af dagskrá.

Reyndar hefur enn ekki fengist umræða um mitt þingmál, hvorki í fyrra þegar ég lagði það fram né nú. Ég hefði viljað óska eftir því við hæstv. forseta að þetta mál fengi að fara í gegnum þingið næstkomandi fimmtudag, þá umræðulaust, þannig að allsherjarnefnd hafi málið til umfjöllunar milli umræðna, þ.e. um leið og það fjallar um þingmálið sem var verið að taka af dagskrá, frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðabótalög á þingskjali 681.

Vegna þess hvernig skaðabótalögin eru í dag, og ætlunin er að leiðrétta með þessu frumvarpi, hafa nokkrir einstaklingar farið mjög illa út úr lögunum og orðið af verulegum bótum, þ.e. bótum til maka eða sambúðarmaka vegna missis framfæranda. Ég tel mikilvægt að nefndin skoði sérstaklega hvort hægt sé að koma til móts við þá tíu til tólf einstaklinga sem hafa farið illa út úr lögunum vegna þessa, að það verði skoðað hvort hægt sé að koma inn með bráðabirgðaákvæði um þann þátt þegar allsherjarnefnd tekur málið aftur til skoðunar.

Ég óska sem sagt eftir því að þingmál mitt, 275. mál á þskj. 297, fái að fara í gegnum þingið næstkomandi fimmtudag og komist þá til allsherjarnefndar á sama tíma og fjallað verður um frumvarpið um skaðabótalög.