131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Hlutur húsnæðiskostnaðar í neysluverðsvísitölu.

527. mál
[12:10]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin og finn að hann deilir þessum áhyggjum með mér og reyndar fleirum í umræðunni um verðbólguþróunina og hvernig fasteignaverð er reiknað inn í vísitöluna. Það er ekkert smámál ef vísitalan hækkar tvöfalt meira en eðlileg ástæða væri til vegna skyndibólna á fasteignamarkaði. Verðbólgan hækkar skuldir heimilanna og skuldir húseigenda, þannig að það er ekki bara hin ímyndaða eignaaukning sem kemur vegna hækkunar á fasteignaverði heldur hækka skuldirnar líka á móti og þar af leiðandi greiðslubyrðin. Og þrátt fyrir hina miklu hækkun stýrivaxta hjá Seðlabankanum, sem bitnar hart á atvinnulífinu, á einstaklingum sem verða að leita að fjármagni á skammtímamarkaði eða skammtímalánum fer verðbólgan svona upp. Það verður því að horfa til allra leiða til að verðbólgan mælist ekki hærri en raunverulegt efnahagsástand gefur til kynna.

Ég geri mér grein fyrir mikilvægi húsnæðiskostnaðarins í vísitölunni og það er alls ekki verið að gera því skóna að draga eigi úr vægi hennar. Hins vegar getur húsnæði sem markaðsvara, sem farin er að ganga á markaði til að kaupa og selja til fjárhagslegs ávinnings, ekki verið raunsannur mælikvarði á húsnæðiskostnað sem við hugsum til, til þarfa einstaklingsins og fjölskyldnanna í landinu. Því fagna ég því (Forseti hringir.) ef hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir endurskoðun á þessu.