131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:37]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Eins og hv. málshefjanda er kunnugt skipaði ég sérstaka verkefnisstjórn í byrjun þessa árs til að fara yfir stöðu framtíðar Lánasjóðs landbúnaðarins. Verkefnisstjórninni var falið að endurskoða framtíðarhlutverk og tilgang Lánasjóðs landbúnaðarins í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á fjármálamarkaði hér á landi. Það eru gríðarlegar breytingar eins og allir þekkja.

Verkefnisstjórnin lauk starfi sínu rétt fyrir páska og skilaði til mín áliti. Þar kemur m.a. fram að það er mat verkefnisstjórnarinnar að miðað við núverandi aðstæður komi vart til greina að Lánasjóður landbúnaðarins verði rekinn áfram í óbreyttri mynd. Gjörbreyttar aðstæður á fjármálamarkaði, óvissa um framtíðarskipan búnaðargjalds og samkeppnisstaða sjóðsins sem fjármálafyrirtækis benda ótvírætt í þessa átt. Ég var því að skýra frá niðurstöðum þeirrar vinnu sem unnin hefur verið á vegum ráðuneytisins og ber mér skylda til þess. Í ráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi að sölu sjóðsins eða eignum hans. Verið er að skoða hvaða leiðir sé best að fara í þeim efnum og þá hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar til að svo megi verða.

Það er beinlínis rangt hjá hv. málshefjanda að búnaðarþing hafi hvorki fengið gögn né svigrúm til að álykta um framtíð sjóðsins, og ég veit að hv. þingmaður veit betur. Ég veit fyrir víst að búnaðarþing fjallaði um málið, ályktaði meira að segja um það, fékk á sinn fund formann verkefnisstjórnarinnar, framkvæmdastjóra lánasjóðsins sem sat í verkefnisstjórninni og stendur að þessu áliti, stjórnarformann sjóðsins auk þess sem bæði formaður Bændasamtakanna og framkvæmdastjóri voru í áðurnefndri verkefnisstjórn sem skilaði áliti sínu skömmu fyrir páska. Þessir aðilar skýrðu búnaðarþingsfulltrúum frá þeirri vinnu sem unnin hefur verið og væri verið að vinna að, auk þess að skýra frá stöðu sjóðsins almennt í breyttri mynd, hver staða hans er þegar horft er til framtíðar og hversu erfiður rekstur hans getur orðið ef ekki verða þar teknar ákvarðanir.

„Er það ætlun ráðherra að keyra sölu lánasjóðsins áfram án frekara samráðs við bændur?“

Ég hef hingað til haft fullt samráð við bændur um framtíðarskipan lánasjóðsins. Verkefnisstjórnina skipuðu m.a. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna. Hef ég í starfi mínu sem landbúnaðarráðherra lagt mikla áherslu á samvinnu og samstöðu við bændur og mun gera það áfram. Á nýafstöðnu búnaðarþingi áréttaði ég að það væri afar þýðingarmikið að bændur kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um framtíðarskipan þeirra mála er varða lánveitingar til landbúnaðarins og stöðu lánasjóðsins í því sambandi, sem þeir og gerðu í sérstakri ályktun búnaðarþings. Þetta veit hv. málshefjandi.

Hvað 1. veðrétt sjóðsins varðar hefur hann ætíð verið umdeildur og hefur sú gagnrýni ekki síst komið frá bændum sem hafa viljað gefa lánasjóðnum meiri sveigjanleika í útlánum sínum með því m.a. að gefa eftir 1. veðrétt. Í sjálfu sér er ekkert að óttast fyrir skilvísa menn og ég veit að íslenskir bændur eru skilvísir og standa ávallt við skuldbindingar sínar. Ég óttast því ekki þetta, enda munu bændur áfram fara með ráðstöfunarrétt á eignum sínum eins og aðrir þegnar þessa lands. Þar verður engin breyting á enda greiða þeir margir upp í dag lán sín til þess að ráða yfir veðum sínum. Hef ég fyrir mitt leyti viljað sjá bændur hafa sem ríkastan ráðstöfunarrétt á eignum sínum. Á því verður engin breyting og það er auðvitað hræðsluáróður sem hér er rekinn af hv. þingmanni.

„Er ráðherra t.d. reiðubúinn að endurskoða söluhugmyndirnar og leita annarra leiða, t.d. að sameina undir einum hatti rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins og Lífeyrissjóðs bænda og ná þannig fram hagræðingu sem tryggi jafnframt að forræði landbúnaðarins á málinu haldist og framtíð lánasjóðsins verði tryggð?“

Eins og ég sagði fyrr í svari mínu er verið að skoða innan landbúnaðarráðuneytisins hvaða leið sé best að fara við að hætta starfsemi sjóðsins í núverandi mynd. Margar leiðir koma þar til greina, t.d. að leggja niður starfsemi sjóðsins og selja eignir hans. Ríkissjóður tæki þá við skuldbindingum sjóðsins, og þau verðmæti sem fengjust umfram skuldbindingar hans rynnu til eflingar Lífeyrissjóði bænda. Sá er vilji ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Margvísleg rök eru fyrir slíkri ráðstöfun en helst ber að nefna að undir lok áttunda áratugar síðustu aldar var höfuðstóll Stofnlánadeildar landbúnaðarins orðinn neikvæður og bændur hafa auðvitað byggt upp þennan sjóð með inngreiðslum sínum þannig að það er mjög eðlileg leið.

Önnur leið væri að breyta sjóðnum í hlutafélag og selja hann svo með manni og mús og ráðstafa söluandvirðinu til Lífeyrissjóðs bænda. Þriðja leiðin er auðvitað sú sem hv. þingmaður kom hér inn á og ég er að skoða hvort lög standi til og hvort það mundi efla sjóðinn, þ.e. að sameina hann Lífeyrissjóði bænda. Yfir það er verið að fara en hvað það varðar geta verið veggir í því máli sem hindra það, þá hvort það gengi upp vegna laga lífeyrissjóðanna í landinu. Þessar leiðir allar þrjár er ég að skoða nú í ráðuneyti mínu og mun vonandi í næstu viku leggja þær fyrir ríkisstjórn og málið kæmi svo hér inn í þingið á eftir.