131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa því á bug að ég sé að tala eitthvað niður til leikfélaga úti um landið þegar ég lýsi því yfir að dagskrárgerð þeirra fyrir íslenskt sjónvarp yrði annars konar dagskrárgerð en þeirra fagmanna sem hafa menntað sig til að búa til innlenda dagskrá fyrir sjónvarp.

Leikfélög úti um land eru mjög fær og vel í stakk búin til að búa til leiksýningar fyrir þá áhorfendur sem þau hafa aðgang að. (Gripið fram í.) Þau standa miklu betur að vígi til að gera slíkt en t.d. lærðir kvikmyndagerðarmenn eða hljóðmenn eða ljósamenn sem hafa sérhæft sig í sjónvarpi. Við erum bara að tala hér um tvo ólíka hluti. Hv. þingmaður verður að athuga það að þegar við tölum um fagmennsku erum við að tala um mjög sérgreinda hluti. Þeir sem hafa sérhæft sig í að gera dagskrá fyrir sjónvarp eru góðir í því og bestir í því, betri en aðrir sem hafa menntað sig í öðrum hlutum, (Gripið fram í: Líka …?) það er nú bara þannig.

Varðandi hins vegar hitt málefnið sem hv. þingmaður nefnir, fréttastjóramálið, sem ég er ekki viss um að Sjálfstæðisflokkurinn græði á að tala mikið um, ekki heldur Framsóknarflokkurinn eða stjórnarflokkarnir almennt, (Gripið fram í.) vil ég lýsa því yfir að hv. þingmaður notar hér hugtakið einelti á afar rangan hátt. Það er mjög villandi og hreinlega ámælisvert að hv. þingmaður skuli leyfa sér að nota þetta hugtak yfir það sem gerðist í fréttastjóramálinu (Gripið fram í.) þar sem pólitík var beitt svo óyggjandi er til að koma að ákveðnum manni umfram aðra, (Gripið fram í.) þar sem það er vitað að sá sem minnsta reynslu hafði af umsækjendum hlaut starf og þar með var gengið fram hjá fjölda hæfra manna sem kunnu viðkomandi fag (Gripið fram í.) sannanlega betur en sá umsækjandi sem hlaut starfið. Það var ekkert einelti sem sá maður þurfti að þola. (Gripið fram í.) Einelti þýðir allt annað og ég bið hv. þingmann að kynna sér það hugtak áður en hann fer að nota það í þessari merkingu.