131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:21]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það lá alveg fyrir á því kjörtímabili sem ég var forseti borgarstjórnar hvar brautin skyldi liggja. Sjálfstæðisflokkurinn undir forustu Ingu Jónu Þórðardóttur og Reykjavíkurlistinn voru fullkomlega sammála um það. Vandamálið var bara það að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra vildi ekki fara þá leið. Þess vegna stöndum við hér, sex árum eftir að Sturla Böðvarsson settist í stól samgönguráðherra. Allan þann tíma hefur hann talað um Sundabraut, sennilega í hverjum mánuði, ef ekki hverri viku, og enn þann dag í dag, sex árum síðar, 2 þús. dögum, veit hann ekki og hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort menn eigi að borga veggjöld á þessari Sundabraut. Hann veit ekki hvar hún á að liggja. Það eru engir peningar í verkefnið. Verkefnið kostar 18 milljarða kr. og á næstu fjórum árum hefur hann tryggt 350 milljónir til þess, þ.e. 2% af áætluðum verkkostnaði.

Hér kemur hæstv. samgönguráðherra einfaldlega tómhentur til samgönguáætlunar hvað varðar brýnasta hagsmunamálið fyrir Vesturland, Vestfirði og Reykjavíkursvæðið. Það eru engir fjármunir sem heitið geti til Sundabrautar. Það er engin trygging fyrir fjármögnun á því verkefni. Það er ekki vitað hvar hún á að liggja. Hæstv. ráðherra hefur eftir sex ára umþóttunartíma ekki enn getað tekið afstöðu til þess hvort það eigi að greiða veggjöld af umferð um brautina eða ekki. Hæstv. samgönguráðherra skilar sjötta árið í röð auðu í málefnum Sundabrautarinnar, og það er miður því að það er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir Reykjavík, fyrir höfuðborgarsvæðið allt en ekki síst fyrir Vesturland, þær byggðir og þá atvinnustarfsemi sem er að eflast hinum megin við flóann. (Gripið fram í.)

Vegna þess að Faxaflóahafnir hefur borið á góma og ég er sem stendur stjórnarformaður þeirra vil ég geta þess að Sundabrautin er alger forsenda fyrir því að sú stofnun geti eflst (Forseti hringir.) og Grundartanginn og starfsemin þar. (GHall: Stefán Jón Hafstein lýsti því yfir að …)