131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:45]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram, bæði á vettvangi utanríkismálanefndar og opinberlega, að kostnaður við öryggisráðsframboð er áætlaður um 600 millj. Það hefur komið fram opinberlega, ég hygg að hv. þingmaður viti það. Það hefur því ekki verið neitt leyndarmál (Gripið fram í.) hversu nákvæm sem sú tala er. Þetta hefur komið fram opinberlega og menn þekkja þá tölu, um 600 millj. kr.

Varðandi hitt málið verð ég að segja að vegna þess málatilbúnaður sem hér var hafður uppi og vegna þeirra svigurmæla og dylgja sem hér voru látin falla ætlaði ég hreinlega að láta það fram hjá mér fara að taka þátt í umræðum af því tagi og fara niður á það plan sem hér var, eiginlega þingsins vegna, að taka ekki þátt í því. Mér fannst þetta vera sett fram með þeim hætti að það væri ekki neinn sómi þings að þeirri framgöngu nema síður væri, þeim stóryrðum og svigurmælum og dylgjum sem hér voru látin falla af hv. þingmönnum. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem þingmenn gera það.

En fjármununum, vegna þess sem hv. þingmaður sem síðast talaði sagði, verður öllum varið af hálfu utanríkisráðuneytisins til mannréttindamála.