131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[16:26]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Það frumvarp sem hér um ræðir er að hluta til afsprengi þeirra hugmynda hæstv. viðskiptaráðherra að skipta upp stjórnsýslu Samkeppnisstofnunar og koma hluta eftirlitsins fyrir hjá nýrri stofnun, Neytendastofu. Fyrsti minni hluti hefur lýst sig andvígan þessari uppskiptingu og telur hana ekki skynsamlega, eins og frekar er rakið í áliti hans um frumvarp til samkeppnislaga, 590. mál.

Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem flest er nú að finna í VI. og VII. kafla samkeppnislaga en í því er lagt til að verkefni sem lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði færð frá samkeppnisyfirvöldum til Neytendastofu. Rökin sem fram hafa verið borin fyrir réttmæti þessarar aðgerðar byggjast fyrst og fremst á því að samnýta megi starfsfólk til þess að sinna verkefnum, sem nú heyra undir Löggildingarstofu og verða færð til Neytendastofu, en nokkrir starfsmenn samkeppnisyfirvalda verða fluttir yfir á Neytendastofu. Hvernig sá flutningur fer fram liggur ekki fyrir. Ýmsir umsagnaraðilar hafa bent á að hefðbundin starfsemi Löggildingarstofu eigi fátt sameiginlegt með neytendavernd og eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum. Um þá gagnrýni vísast til umsagna sem fylgja með áliti þessu.

Fyrsti minni hluti leggst gegn samþykkt frumvarpsins þar sem hann telur að sú breyting á stjórnsýslu samkeppnismála sem það felur í sér veiki mjög eftirlit með virkri samkeppni.

Undir þetta álit skrifa ásamt þeim sem hér stendur, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Helgi Hjörvar.

Þetta mál sem við hér ræðum er, eins og ég rakti í þessu áliti, afsprengi þess að skipta á eftirliti með samkeppnismálum upp og afsprengi þeirrar hugmyndafræði sem varð til í viðskiptaráðuneytinu um að mikilvægt væri að veikja samkeppnislög og veikja allt eftirlit með samkeppnismálum. Þetta tiltekna frumvarp hefur kannski minnst um þetta að segja. En það að þetta skuli fært á þennan hátt er aðeins afsprengi þess sem ég hér áður nefndi og afstaða okkar í Samfylkingunni er í samræmi við það. Við erum andvíg þessum breytingum. Við höfum lýst því hér að við teljum þetta skref aftur á bak. Við höfum einnig lýst þeirri skoðun okkar að einu forsendurnar sem við höfum séð koma upp og kalla á þessa veikingu og þessa breytingu, að einasta málið sem komið hefur upp er hið fræga olíumál sem margoft hefur hér verið nefnt og við teljum það ekki réttlæta það að fara út í þessar breytingar.