131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[18:47]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil við 3. umr. um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess árétta mikilvægi þessa máls sem ágæt sátt er um á Alþingi. Við höfum þegar samþykkt breytingartillögur umhverfisnefndar þar sem komið var til móts við athugasemdir ýmissa aðila og tel ég að þær hafi bætt frumvarpið enn frekar.

Á vatnasviði Þingvallavatns er stærsta grunnvatnsauðlind á Íslandi. Talið er að á Þingvalla- og Brúarársvæðinu ofan við Brúarfoss, sem alls er um 1.260 ferkílómetrar, sé um þriðjungur af öllu lindarvatni í byggð á Íslandi. Þessi aðstaða, auk hins sérstaka lífríkis Þingvallavatns, hefur leitt til þess að talið hefur verið nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til að friða og vernda vatnasvið Þingvallavatns og vatnið sjálft. Megintilgangur frumvarpsins er að stuðla að verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Í frumvarpinu er kveðið á um að óheimilt sé að gera nokkuð það sem getur spillt vatni eða mengað það innan verndarsvæðisins, bæði vatn á yfirborði og grunnvatn.

Við 1. umr. um frumvarpið urðu nokkrar umræður um fylgiskjal I með frumvarpinu. Í ljósi þeirra umræðna og umsagna sem umhverfisnefnd hafa borist um frumvarpið, vil ég ítreka það sem ég sagði við 1. umr. um málið að fylgiskjal I með frumvarpinu er sjálfstæð skýrsla dr. Péturs M. Jónassonar líffræðings. Hún er unnin af honum og á ábyrgð hans og þarf því ekki endilega að fara saman við skoðanir annarra vísindamanna á þessu sviði eða vera samhljóða sjónarmiðum sérfræðistofnana eða annarra eins og gengur og gerist um slíkar skýrslur. Hér er einkum um að ræða þann kafla skýrslunnar sem fjallar um niturmengun. Mat ráðherra á nauðsynlegum aðgerðum til að tryggja verndun Þingvallavatns mun að sjálfsögðu á hverjum tíma taka mið af bestu þekkingu sérfræðistofnana okkar og vísindamanna.