132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á, varðandi hjúkrunarrýmin, að taka fram að það samkomulag hefur verið efnt. Hins vegar er mikil þörf fram undan. Í fyrsta lagi er biðlisti á höfuðborgarsvæðinu. Í öðru lagi þurfum við að laga aðstöðuna á nokkrum hjúkrunarheimilum þar sem enn viðgengst margbýli. Kröfur um slíkt hafa vaxið og ekkert nema gott um það að segja. En það er verkefnið fram undan. Því þurfum við að mæta. Samkomulagið hefur verið efnt. Við erum hins vegar mjög stofnanamiðuð hér á landi varðandi hjúkrunarheimilin. Við þurfum mjög á því að halda að efla heimaþjónustu við aldraða. Samtök aldraðra eru algerlega sammála stjórnvöldum í því efni. Formaður Landssamtaka aldraðra hefur margsinnis tekið það fram við mig að taka þurfi á í heimahjúkrun við aldrað fólk. Það er ljóst.

Ég vil taka fram, varðandi kjörin, að í mjög merkilegu erindi, sem Ásmundur Stefánsson hagfræðingur flutti á fundi Tryggingastofnunar ríkisins fyrir ári, bar hann saman kjör eldri borgara á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Niðurstaða hans varð sú að hér byggju eldri borgarar við betri kjör gegnumsneitt. Hins vegar vil ég taka fram að ef við getum bætt kjörin þá eigum við að bæta kjör þeirra sem eru eingöngu á bótum og hafa ekki nein úrræði annars staðar frá. Það er forgangshópurinn að mínu mati.