132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:26]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 á þskj. 5. Með frumvarpinu er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð áætlun um tekjur og tillögur um breytingar á fjáraukalögum ýmissa fjárlagaliða ársins 2005. Mikilvæg breyting á forsendum er að Landssími Íslands hf. var seldur á árinu. Það hefur mikil áhrif á tekjur og gjöld. Frumvarpið byggir einnig á endurmati á hagrænum forsendum fjárlaganna, áhrifum af lögbundnum fjárlagaliðum og ýmsum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mál sem fram hafa komið eftir afgreiðslu fjárlaga.

Eins og undanfarin ár var lögð áhersla á að leggja frumvarpið fram í upphafi þinghaldsins samhliða fjárlagafrumvarpinu. Með því móti er þingi og fjárlaganefnd gert kleift að fjalla samtímis um áætlanir fyrir bæði árin og ljúka afgreiðslu frumvarpanna tímanlega, eins og ráðgert er samkvæmt starfsáætlun þingsins. Ég mun í framsögu um frumvarpið stikla á stærstu atriðum þess og vísa að öðru leyti til skýringa á einstökum málum í greinargerð frumvarpsins.

Samkvæmt fjárlögum þessa árs, sem afgreidd voru í byrjun desember á síðasta ári, var áætlað að heildartekjur ríkissjóðs yrðu 306 milljarðar kr. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að heildartekjur ársins verði um 396 milljarðar kr. eða rúmlega 90 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þar af er söluhagnaður vegna Landssímans hf. 57,5 milljarðar og fjármagnstekjuskattur vegna sölunnar 5,7 milljarðar kr. Án sölu Landssímans hækka tekjur ríkissjóðs um rúmlega 26 milljarða kr. Það jafngildir rúmlega 8,5% hækkun frá tekjuáætlun fjárlagaársins. Endurmat teknanna tekur mið af innheimtu það sem af er þessu ári. Það ber með sér að hápunkti hagsveiflunnar verður náð á árinu, sem skýrist m.a. af auknum umsvifum á fjármálamarkaði og aðgengi almennings að lánsfé auk þess að hápunktur stóriðjuframkvæmda hefur færst fram og verður á þessu ári. Þá er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 3,7% frá fyrra ári sem á þátt í vexti einkaneyslu. Talið er að hagvöxtur verði 6% á þessu ári en við undirbúning fjárlaga var áætlað að hann yrði 4,9%. Talið er að einkaneysla vaxi um 9,5% í stað 5,1% eins og áætlað var í fjárlögum. Hin auknu umsvif í efnahagslífinu valda því að skattar, tekjur og eignir einstaklinga og lögaðila eru taldar verða 11,8 milljörðum hærri en samkvæmt áætlun fjárlaga. Skattar af launaveltu og viðskiptum með vörur og þjónustu er taldir verða um 10 milljörðum kr. hærri.

Loks verða tekjur af sköttum á eignir um 4,9 milljörðum kr. hærri en áætlað var og skýrist það að mestu af 4,4 milljarða kr. hærri tekjum af stimpilgjöldum.

Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um tæplega 16 milljarða kr. viðbótarfjárheimildir til að mæta ýmsum útgjaldatilefnum. Þar af er greiddur fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs 6,3 milljarðar kr. og áætlaðar afskrifaðar skattkröfur 4 milljarðar kr. Einnig er gert ráð fyrir að ráðstafað verði 1,5 milljörðum kr. af söluandvirði Landssímans til ákveðinna verkefna í samræmi við frumvarp ríkisstjórnarinnar þar um.

Að frátöldum þessum þáttum er gert ráð fyrir tæplega 4,2 milljarða kr. útgjöldum nettó en það svarar til 1,4% hækkunar frá fjárlögum ársins. Mun ég koma nánar að helstu frávikum hér á eftir. Hafa verður í huga að munur er á áætlaðri útkomu ársins 2005 og þeim útgjaldaheimildum sem hér er sótt um. Eins og í fyrri fjáraukalögum stafar sá munur annars vegar af því að jafnan eru einhverjar heimildir í frumvarpinu vegna útgjalda sem þegar hafa verið gjaldfærð á liðnum árum og hins vegar af því að afgangsfjárheimildir og umframgjöld eru flutt frá fyrra ári og einnig til næsta árs. Nýting á fjárheimildum ársins getur þannig verið dálítið breytileg milli ára og verður að leggja mat á helstu tilvikin hverju sinni. Gjaldfærð útgjöld ársins 2005 eru þess vegna áætluð 8 millj. kr. hærri en í fjárlögum án sölu Landssímans hf. Samkvæmt þessu verður tekjuafgangur ársins tæplega 20 millj. kr. meiri en í fjárlögum eða tæplega 20 millj. kr. meiri en í fjárlögum eða tæplega 30 milljarðar án áhrifa Landssímans. Staða ríkissjóðs hefur því styrkst verulega frá því sem áætlað var í fjárlögum og aðhaldsstig ríkisfjármálanna aukist og er áætlað um 2,8% af vergri landsframleiðslu.

Þá vildi ég, frú forseti, víkja nokkrum orðum að breytingum á sjóðstreymi ríkissjóðs sem fram koma í 2. gr. frumvarpsins. Áætlað er að handbært fé frá rekstri aukist svipað frá fjárlögum og tekjuafgangurinn eða um tæplega 20 milljarðar kr. í stað þess að rýrna um tæplega 1 milljarð eins og búist hafði verið við. Það á að mestu rætur að rekja til aukinnar innheimtu tekna á árinu. Fjármunahreyfingar aukast um 66,7 milljarða nettó vegna áhrifa frá söluandvirðis Landssímans hf. Gerð er tillaga um að ráðstafa 1.000 millj. kr. af söluandvirðinu í stofnfjárframlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í samræmi við frumvarp ríkisstjórnarinnar þar um. Niðurstaðan er að horfur eru á að lánsfjárafgangur batni um tæpa 87 milljarða og hann verði því nærri 100 milljarða kr. á árinu 2005. Þessi aukni lánsfjárafgangur gerir kleift að greiða niður skuldir um 54 milljarða kr. til viðbótar við þá 3,7 milljarða sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og einnig að styrkja stöðuna við Seðlabanka Íslands um tæplega 40 milljarða.

Ég kem þá aftur að gjaldahlið frumvarpsins og helstu útgjaldatilefnum. Lagt er til að fjárheimildir ríkissjóðs verði auknar um tæplega 16 milljarða kr. á árinu 2005. Þar af er sótt um 10,7 milljarða kr. fjárheimild hjá fjármálaráðuneytinu en það skýrist að mestu af 6,3 milljarða kr. fjármagnstekjuskatti af söluhagnaði og arði vegna Landssímans sem færist til gjalda og tekna hjá ríkissjóði og af 4 millj. kr. fjárheimild vegna endurskoðunar á áætlun um afskrifaðar skattkröfur. Þá má nefna 210 millj. kr. til að fjármagna aukin útgjöld í tengslum við heimildagrein fjárlaga 2005 og 150 millj. kr. vegna áhrifa kjarasamninga. Útgjöld samgönguráðuneytisins aukast um 1,3 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu. Þar af er sótt um 1 milljarð kr. vegna ráðstöfunar af söluandvirði Landssímans hf. í fjarskiptasjóð. 173 millj. kr. er hækkun á útgjöldum umferðarstofu. Útgjöld heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis aukast um 1,3 milljarða kr. Þar af eru 600 millj. kr. til að koma til móts við uppsafnaðan halla Landspítala – háskólasjúkrahúss, 300 millj. kr. vegna ráðstöfunar á söluandvirði Landssímans til byggingar hátæknispítala, 134 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum halla sjúkrastofnana og 120 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla á stofnkostnaði við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Útgjöld menntamálaráðuneytis aukast um rúmlega 930 millj. kr. Þar af eru um 250 millj. kr. til endurbóta á Þjóðleikhúsinu, 126 millj. til uppgjörs á endurbótasjóði menningarbygginga, 110 millj. kr. til að greiða umframgjöld Háskólans á Akureyri, 100 millj. kr. til að mæta fjölgun nemenda í framhaldsskólum og rúmar 80 millj. kr. til að mæta kostnaði við hæstaréttardóm um úthlutun úr Ritlauna- og rannsóknarsjóði prófessora.

Útgjöld forsætisráðuneytis aukast um rúmar 850 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu. Þar af eru 750 millj. kr. kostnaður við sölu Landssímans hf. og 35 millj. kr. vegna sjúkraflugs vegna hamfaranna í Suðaustur-Asíu.

Útgjöld félagsmálaráðuneytis aukast um rúmar 730 millj. kr. Þar af eru 600 millj. kr. endurmat framlaga í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, 365 millj. kr. endurskoðuð útgjöld Fæðingarorlofssjóðs og 200 millj. kr. til búsetuúrræða fyrir geðfatlaða af söluandvirði Landssímans hf. Á móti lækka útgjöld vegna atvinnuleysisbóta um tæplega 520 millj. kr. og útgjöld Ábyrgðasjóðs launa um 118 millj. kr.

Útgjöld landbúnaðarráðuneytis hækka um rúmlega 500 millj. kr. Þar af eru rúmlega 220 millj. kr. vegna stuðnings við landbúnað, 150 millj. kr. til landbúnaðarskóla og 120 millj. kr. umframgjöld og tapaðar kröfur embættis yfirdýralæknis.

Útgjöld utanríkisráðuneytis aukast um tæplega 500 millj. kr. Þar af eru 274 millj. kr. uppsafnaður halli sendiráða, 137 millj. kr. vegna flutninga fyrir NATO og til uppbyggingar þróunarstarfs á Sri Lanka.

Útgjöld iðnaðarráðuneytis aukast um rúmar 400 millj. kr. Þar af eru 275 millj. kr. endurgreiddur kostnaður við kvikmyndagerð á Íslandi og 100 millj. kr. auknar niðurgreiðslur á rafhitun.

Útgjöld annarra ráðuneyta aukast minna. Þó má nefna 180 millj. kr. aukin útgjöld umhverfisráðuneytisins vegna Ofanflóðasjóðs, vaxtagjöld ríkissjóðs lækka um rúmlega 1,3 millj., kr. einkum vegna lækkunar skulda og útgjöld Úrvinnslusjóðs lækka um tæplega 500 millj. kr. Aðrar breytingar eru minni og koma fram vegna ýmissa ófyrirséðra atvika, samninga og lagabreytinga auk nýrra ákvarðana.

Ég hef nú, frú forseti, farið nokkrum almennum orðum um frumvarpið og þau áhrif sem það hefur til að auka lánsfjárafgang og rekstrarafgang ríkissjóðs. Legg ég því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar Alþingis.