132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:11]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega umræðu og yfirferð yfir einstaka liði frumvarpsins. Ég treysti því að hann muni fara yfir þetta í nefndinni eins og vera ber og þar munu nákvæmari skýringar verða gefnar en þær sem ég hef getað reitt fram hér. Einu verð ég hins vegar að hafna hjá hv. þingmanni að það séu einhverjar skeytasendingar í greinargerð með frumvarpinu til Ríkisendurskoðunar. Það eru miklu hægari heimatök til þess að hafa samskipti við Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðanda en svo að það þurfi að vera með einhverjar skeytasendingar í fjáraukalagafrumvarpinu.

Mér fannst hins vegar athyglisverð umfjöllun hv. þingmanns um aðferðafræðina sem verið var að lýsa í samskiptum ráðuneytanna við stofnanir. Einnig var athyglisvert dæmið sem hann tók af Háskólanum á Akureyri, en mér fannst einhvern veginn eins og endahnútinn vantaði á gagnrýnina þar. Er hann að gagnrýna það að háskólinn skuli fá 110 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu og ætti þá háskólinn ekki að fá þær eða ætti hann að fá meira? Hvort leggur hv. þingmaður til?