132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:21]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir góðar undirtektir við fyrri ræðu mína. Ég skildi það svo að hann væri raunverulega að taka undir það sem ég hefði þar sagt. Ég heyrði þetta að vísu ekki nákvæmlega vegna þess að ég var rétt að koma inn í salinn en ég heyrði ekki betur en undirtektirnar hefðu verið slíkar. Ég fagna því auðvitað og það er akkur í því að hafa hv. þingmann sem liðsmann í að reyna að ná tökum á agaleysinu í ríkisfjármálum og að við stöndum þétt við bakið á þeim sem það vilja. Ég held að mikilvægt sé að liðsmenn séu líka í flokki hæstv. fjármálaráðherra gagnvart því svo að aðhaldið verði allt um kring því að ekki veitir af.

Athugasemdirnar eru líka réttar hjá hv. þingmanni sem ég hafði ekki komið að í ræðu minni varðandi heimildarákvæðin. Það er alveg með ólíkindum að heimildarákvæðin, sem eru upp á 25–30 milljarða, eigi að skýra sig að mestu sjálf. Þetta held ég að sýni vel hugsunarháttinn sem þarna er. Það getur vel verið að það sé rétt orð hjá hv. þingmanni að góðærisglýjan sé slík í augum hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé skýring en veit þó ekki hvort það er nákvæm skýring, hv. þingmaður. (Forseti hringir.) Við þyrftum kannski að ræða það örlítið nánar.