132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[18:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem verið hefur um frumvarpið. Beint var nokkrum fyrirspurnum til mín.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, 2. þm. Reykv. s., spurði hvort í gangi væri í heilbrigðisráðuneytinu heildarendurskoðun á hjúkrunarrýmum. Því er til að svara að við erum alltaf með slíka endurskoðun í gangi. Við þörfnumst þess bæði vegna þess biðlista sem hefur verið til umræðu í dag og eins vegna breyttra aðstæðna og breyttra krafna um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Það eru til hjúkrunarheimili, eins og hefur verið rætt um, sem eru margbýli og það er ekki talið hæfa í dag. Á ýmsum hjúkrunarheimilum hefur verið í gangi vinna til að breyta því og við þurfum að skoða það vissulega hvernig við getum mætt því.

Til dæmis er þörf á að bæta við 60 rýmum í Hafnarfirði en hrein viðbót verður ekki nema 20 rými vegna þess að það þarf að rýma til á Sólvangi um 40 rými ef vel ætti að vera. Þetta er það sem við gætum að og höfum vissulega verið í vinnu í ráðuneytinu að skoða þetta. En ekki síður verður sú vinna að miða að því að meiri fjölbreytni verði í búsetuúrræðum, menn hafi aðgang að íbúðum í nánd við þjónustukjarna. Ýmsar hugmyndir eru uppi í því efni og við verðum að fylgjast rækilega með. Ég tel að fjölga þurfi valkostum í búsetunni. Þetta höfum við verið með til skoðunar og full þörf á að skoða það.

Við höfum í fjárlagafrumvarpinu núna bætt töluverðum peningum í dagvistun og stærsti þátturinn í því er dagvistun fyrir minnissjúka í Hafnarfirði þar sem við tökum í notkun ein 20 pláss á næsta ári. Það skref er fagnaðarefni og mikil þörf á því sviði.

Varðandi heimaþjónustuna, sem hv. 4. þm. Reykv. s., Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, spurði um var ákvæði í hinum margumtalaða samningi um að bæta fjármunum inn í heimahjúkrunina og það hefur verið gert á undanförnum árum. Stærsta skrefið í því er samningur við Reykjavíkurborg um að samþætta félagsþjónustu borgarinnar og heimahjúkrun á vegum heilsugæslunnar. Unnið hefur verið að þeirri samræmingu á undanförnum árum og við bindum miklar vonir við það þegar það er farið að snúast og komið að fullu til framkvæmda.

Við höfum verið í viðræðum við Samtök aldraðra um framkvæmd samningsins, teljum að hann hafi staðist varðandi hjúkrunarrýmin en við erum í viðræðum við þá um túlkanir þeirra á því máli. Það sem skiptir mestu er hvað fram undan er í því efni. (JóhS: … sveigjanleg starfslok.) Varðandi sveigjanleg starfslok höfum við ekki komist að niðurstöðu og þar þurfum við að taka á. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um það, þannig er staðan. Það er auðvitað mál sem við þurfum að vinna í. Ég hef hug á að taka það upp.

Hvort vísa á þessu máli til efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að þetta er skattamál þá ætla ég að halda mig við tillögu mína um að frumvarpinu verði vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar vegna þess að þetta snertir hjúkrunarrýmin og málefni aldraðra. Hins vegar hef ég ekkert á móti því að heilbrigðis- og trygginganefnd vísi málinu til efnahags- og viðskiptanefndar eða biðji um umsögn hennar eins og var stungið upp á. Ég set mig ekkert á móti því enda hefur þingið forræði yfir því máli auðvitað. En ég held mig við tillögu mína um heilbrigðis- og trygginganefnd.

Ég hlustaði á ábendingar hv. 3. þm. Reykv. s., Péturs H. Blöndals, um skattamál en ég ætla ekki að fara út á þann hála ís að fara að ræða þau almennt enda heyra þau undir annað ráðuneyti. Vegna þess að um þetta mál gilda sérstök lög hefur það verið venjan að heilbrigðisráðherra flytji það í tengslum við fjárlögin. En málið er í sjálfu sér rútínumál þó að þetta snerti auðvitað þennan mikilvæga og stóra málaflokk sem eru öldrunarmálin.