132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[18:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel í sjálfu sér svar hæstv. ráðherra varðandi það sem við höfum heyrt um tvíbýlin á Selfossi fullnægjandi. Ég geri þá ráð fyrir að það sé hugsað fyrir hjón eða sambúðarfólk sem er auðvitað góðra gjalda vert og gott mál.

Hæstv. ráðherra kemur hér inn á stefnu sína í þessum málum, þ.e. að það sé stefna hans og ríkisstjórnarinnar að eldri íbúum þessa lands sé gert kleift að vera eins lengi og mögulegt er í sínu eigin umhverfi á sínu eigin heimili. Ég er fylgjandi þeirri stefnu, ég tel hana rétta og allra góðra gjalda verða. En hins vegar verður hæstv. ráðherra að horfast í augu við veruleikann í þeim efnum.

Við eigum við það að glíma að heimahjúkrunin, sem er nauðsynlegt úrræði fyrir þá aldraða sem búa heima lengi, virkar ekki sem skyldi. Heimaþjónustan er, ég segi ekki í molum, en hún á verulega undir högg að sækja og hvers vegna? Vegna þess að fólk fæst ekki til starfa. Mínar heimildir segja að mikill flótti sé úr heimaþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu núna og skjólstæðingar hennar halda því fram að það sé að hluta til því að kenna að Sóltúnsheimilið, sem er mannaflafrekt og óskar eftir fólki með reynslu, getur boðið fólki sem hefur verið að starfa í heimaþjónustunni hærri laun í krafti þeirra fjármuna sem heimilið hefur umfram aðrar stofnanir í þessum efnum. Þetta ástand er algerlega óviðunandi og hæstv. ráðherra verður auðvitað að segja eitthvað annað um þessi mál en hann sagði í Morgunblaðinu þann 20. sept. sl., með leyfi forseta:

„... við höfum því miður ekki haft afl til þess að taka Sóltúns-samninginn upp alls staðar. Ef við ætlum okkur að lyfta öðrum heimilum upp í þann „standard“, sem er á Sóltúni, þá þurfum við einfaldlega meira fjármagn inn í þennan rekstur.“

Það er auðvitað mergurinn málsins. (Forseti hringir.)