132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[13:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil í upphafi fagna því hversu snemma þetta frumvarp er fram komið. Þetta hefur verið árlegur viðburður síðustu árin síðan úrvinnslugjaldið komst á, eðli málsins samkvæmt vegna þess að upphæðir þarf að laga hverju sinni og vegna þess að þessi mál hafa verið í framþróun frá því að frumvarp um þau var fyrst samþykkt, og borið hefur við á síðasta þingi og að ég held á þinginu þar áður að frumvörp sem flókin eru og tæknileg um þetta mál komu fram seint. Á síðasta þingi tókum við sérstaklega til þess í salnum að hæstv. umhverfisráðherra var sammála okkur um það og lofaði bót og betrun og ég þakka hér með fyrir að sú bót og betrun skuli vera komin til skila því að þetta er sem sé eitt af fyrstu málum þingsins eins og eðlilegt er að svo sé.

Ég vil í öðru lagi fagna því sem er viðburður í þessum afmarkaða málaflokki að nú hefur náðst síðasti áfanginn af þeim sem tilteknir voru í upphafi þessarar ráðagerðar og pappírs- og plastumbúðir eru komnar inn í þetta gjaldakerfi. Það hefur gengið töluvert á að koma þeim inn, verið ákveðin tregða í því en vissulega líka tæknilegir erfiðleikar og ber að fagna því að þetta er loksins komið á. Við frestuðum því í fyrra og hittiðfyrra með semingi fyrir orð hæstv. umhverfisráðherra í fyrra og þökkum líka fyrir það að hér hefur verið staðið að því er virðist vel að verki.

Um frumvarpið sjálft er kannski ekki mikið að segja við 1. umr. Það er flókið og tæknilegt. Mér virðist við fyrstu sýn að þær leiðir sem farnar eru um pappa, pappírs- og plastumbúðamál séu hyggilegar og það sé jákvætt að til standi að breyta öðrum reglum. Reglurnar um þetta allt saman eru að skýrast, agast og þjálfast og eru að verða einfaldari að því er virðist, í þokkalega góðri samvinnu milli stjórnvalda og eftirlitsstofnana okkar annars vegar og hins vegar þeirra sem helst standa í því að framfylgja frumvarpinu þ.e. framleiðenda, innflytjenda og kaupsýslumanna ýmiss konar þó að við sem almenningur borgum að lokum.

Um hjólbarðana er ekki margt að segja fyrir menn sem ekki þekkja mikið til hjólbarða en ég efast ekkert um það núna að þarna sé verið að koma á jafnvægi, hafði reyndar mjög gaman af að fara yfir þennan kafla, 4. gr., því þar er margt af orðum sem okkur málfræðingum þykir gaman að sjá: púðurhjólbarðar, ámokstursvélar, sjálfknúnir valtarar, götuhreinsibifreiðar, úðunarbifreiðar, röntgentækjavagnar, þetta þarf að komast upp á Orðabók Háskólans til sérstakrar orðtöku. Ég hafði mjög gaman af því að kynnast vandamálinu um mismun á þyngd hjólbarða og felgna á sama dekkinu en Úrvinnslusjóður og stjórn hans sérstaklega hefur beitt sér í því máli og hefur ákveðið að í tilteknu tollskrárnúmeri verði þyngd hjólbarðans annars vegar og felgunnar hins vegar ákveðin fyrir fram, 50% hvor um sig. Það eru sem sagt hjólbarðar á stálfelgum, álfelgum og léttmálmsfelgum, þingheimi til upplýsingar.

Þegar þessi áfangi hefur náðst er kannski kominn tími til að umhverfisráðherra og umhverfisnefnd skoði framtíðina í þessum efnum. Við ræddum um það í fyrra og ég hygg hittiðfyrra líka og þar áður að skoða þyrfti pappírsvörur sérstaklega, ekki pappír sem umbúðir heldur þá vöru og þau gögn sem beinlínis samanstanda fyrst og fremst af pappír. Þá er átt við einna helst dagblöð og ýmis auglýsingablöð og í rauninni í prinsippinu líka bækur og tímarit. Svör fengust lítil við þessu máli í fyrra hjá hæstv. ráðherra en það var áberandi þegar rætt var við sveitarstjórnarmenn í nefndinni að þeir höfðu hins vegar miklar áhyggjur af þessu máli, auknu pappírsflæði um heimili og samfélag af ýmsu tagi. Það kann að vera kominn tími til þess og ég hygg að hann sé kominn að þetta verði tekið fyrir og athugað hvort með úrvinnslugjaldi sé hægt að slá á þetta pappírsflæði eða tryggja að það komist að lokum í þá öruggu höfn sem aðrar úrvinnslugjaldsvörur lenda í, skulum við vona samkvæmt þessu frumvarpi.

Ég hlýt í þessu sambandi þó að það varði ekki frumvarpið að minnast á athugasemdir sem við samfylkingarmenn og fleiri höfum gert um stjórn Úrvinnslusjóðs. Ég tel að skipan hennar sé eitt af því sem þarf að athuga á næstu árum þegar tími gefst til frá hinum flóknu og tæknilegu úrlausnarefnum sem hér er við að fást. Að öðru leyti endurtek ég það úr ræðum okkar samfylkingarmanna við fyrri umfjöllun um frumvarp af þessu tagi að við styðjum þetta málefni. Við teljum það horfa til framtíðar, við fögnum þeirri samstöðu sem hefur tekist um meginpartinn af þessum úrvinnslu- og skilagjaldsmálum öllum saman og þótt umhverfisnefnd verði auðvitað að leggjast yfir þetta mál vendilega og kalla til sín þá sem það varðar held ég að ég geti heitið því fyrir hönd okkar samfylkingarmanna að við munum greiða för frumvarpsins í gegnum þingið þannig að það verði afgreitt sem allra fyrst og aðilum gefist þá góður tími til undirbúnings fyrir þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.