132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:03]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Lögmál framboðs og eftirspurnar óheft getur svo sem gilt um vöru sem hægt er að sækja á stóran markað. Við höfum hingað til gert ráð fyrir að Íslendingar verði sjálfum sér nógir um mjólk og mjólkurvörur, það þyrfti ekki að flytja þær inn, ekki a.m.k. dagvörurnar. Það þýðir að við erum með ákveðinn grunn hér sem við viljum byggja upp.

Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að það er alvarlegt núna ef framleiðslan annar ekki eftirspurn því að það ýtir þá undir að farið verði að kalla á innflutning á mjólkurafurðum. Ein ástæðan fyrir því einmitt hve erfiðlega gengur að aðlagast þessari aukningu núna er hve búin eru orðin fá. Stærstu búin sem standa undir mestu framleiðslunni hafa mjög litla möguleika til þess að auka framleiðsluna því að þau hafa þegar sett framleiðsluna í topp.

Ég tel ekki rétt og spyr þingmanninn hvort hún telji að ríkið eigi að koma með magntengdar beingreiðslur, óháð stærð búa, alveg út í hið óendanlega. Ég er ekki þeirrar skoðunar.

Ég var einmitt að vitna áðan í samtök bænda um að mjög nauðsynlegt sé að skoða þessi mál, fara yfir þau og hvort ekki sé rétt að setja þarna ákveðin mörk sem ekki er þá þegar búið að sprengja og þess vegna ætti að vera hægt að koma þeim til framkvæmda.

Ég tel, frú forseti, mjög mikilvægt að þetta mál fái vandaða meðferð og umfjöllun eins og samtök bænda kalla eftir.