132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:36]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vitnaði í ræðu minni til tillagna og erinda hinna ýmsu samtaka bænda. Ég vitnaði til bændafundar í Skagafirði þar sem óskað var eftir að þessi mál yrðu skoðuð. Ég vitnaði til ályktunar frá Svínaræktarfélagi Íslands þar sem óskað var eftir að þessi mál yrðu skoðuð. Ég vitnaði til ályktunar búnaðarþings, bæði frá árinu 2004 og líka frá árinu 2005 þar sem óskað var eftir að þessi mál yrðu skoðuð. Ég vitnaði einnig til erindis Landssamtaka sauðfjárbænda þar sem líka var samþykkt að þessi mál yrðu skoðuð, þessi öryggismál, þessi stærðarmörk bæði hvað varðar öryggi neytenda, öryggi framleiðenda og þátttöku ríkisins. Öll þessi samtök hafa óskað eftir því að þessi mál yrðu skoðuð. Það er ég að leggja til í mínu frumvarpi. Ég legg þarna til ákveðna nálgun. En mál þetta fer til landbúnaðarnefndar og síðan til umsagnar hinna ýmsu aðila úti í samfélaginu, hagsmunaaðila bæði hjá framleiðendum og neytendum og þá fáum við fram sjónarmið þeirra. En öll samtök bænda telja tímabært að þetta sé tekið upp, frú forseti, og þess vegna er þetta frumvarp líka flutt. Ég styð reyndar þau sjónarmið samtaka bænda að brýnt sé nú þegar að skoða þetta. Þar er talað um að nú þegar eigi einhver lögaðili yfir milljón lítra í framleiðslurétti og er hann þar af leiðandi líka, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi, kominn með um 45–50 millj. kr. frá ríkinu í beingreiðslum, sami lögaðili. Þetta heyrist sagt.