132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:32]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna nokkuð sérkennilegrar uppákomu sem varð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og í framhaldi af þeim fundi. Mig langaði til að beina orðum mínum til hæstv. forsætisráðherra af því tilefni. Nú kann einhverjum að þykja það sérkennilegt að vilja tala við hæstv. forsætisráðherra um uppákomur á þingi sjálfstæðismanna sem hann ber auðvitað ekki ábyrgð á en ástæðan er sú að þetta sneri að fjölmiðlunum og þeirri sátt í fjölmiðlamálinu sem ég og, held ég, þingheimur allur og þjóðin hélt að hefði náðst í því máli síðasta vor.

Eins og menn rekur minni til varð mikið uppistand í þessu samfélagi á árinu 2004, og lék raunar allt á reiðiskjálfi út af fjölmiðlamálum. Mikið kapp var lagt á það þegar menntamálaráðherra setti niður nefnd um fjölmiðlamálið að menn næðu sátt og samstöðu í þeirri nefnd. Svo mikið kapp var á það lagt að nefndin sammæltist um að allar tillögur hennar skyldu koma til framkvæmda saman, það skyldi ekki vera þannig að það væri hægt að taka einhverjar þeirra út úr og setja í löggjöf, heldur væru þær allar fyrir eina og ein fyrir allar. Það var svo mikið kapp lagt á þessa sátt að ekki var einu sinni gert ráð fyrir bókunum í þessari nefnd. Um þetta sammæltumst við öll og því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þessi sátt standi eða hvort til standi að rjúfa hana, rjúfa þessa sátt núna á þessu þingi.

Stendur hún og mun fjölmiðlafrumvarp koma fram sem byggir á þessum tillögum eða er verið að rjúfa þessa sátt?