132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sprotafyrirtækin og nýsköpunin fá lítið svigrúm í háu gengi krónunnar. Útflutningsatvinnuvegunum er fórnað en viðskiptahallinn vex sem aldrei fyrr. Bílddælingur á Bíldudal, Særún á Blönduósi, Fiskvinnslan Kolka á Hofsósi, sushi-verksmiðjan Sindraberg á Ísafirði, Perlufiskur á Þingeyri, Frosti á Súðavík, beituverksmiðjan Aðlögun á Ísafirði sem var verið að loka í dag, rækjuverksmiðjan í Stykkishólmi. Allt þetta talar sínu máli um hvernig staðan er. Ferðaþjónustan mun kvíða næsta ári ef gengið breytist ekki.

Ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar, segir Seðlabankinn. Það var varað við þessu. Ruðningsáhrif stóriðjunnar, segir atvinnulífið. Það var varað við þessu.

Greiningardeild Íslandsbanka segir að jafnvægisgengi íslensku krónunnar til að ná jöfnuði í erlendum viðskiptum liggi í kringum 135 en er núna nálægt 100, eða nálægt 40% hærra en jafnvægisgengið þarf að vera.

Hæstv. forsætisráðherra var að tala um einhverja spá fyrir gengið. Veit hæstv. forsætisráðherra hver spáin var fyrir þetta ár? Hin opinbera spá var 125 en lendir nú nærri 110 svo við sjáum hvers konar spádóm er hér um að ræða.

Frú forseti. Ruðningsáhrif stóriðjunnar geta líka verið af hinu góða, sagði iðnaðarráðherrann þegar hún var að tala um kosningaloforðin í frammíkalli áðan. (Gripið fram í: … hárrétt.) Og þetta eru skilaboð hæstv. ráðherra og kosningaloforð Framsóknarflokksins til fólksins á Vestfjörðum: Að loka atvinnufyrirtækjunum sem fórn fyrir stóriðjustefnu iðnaðarráðherrans og Framsóknarflokksins. Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að segja stopp við þessu stóriðjuæði og þeim miklu fórnum sem Framsóknarflokkurinn er að krefjast af byggðum landsins?