132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:13]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem stendur upp úr þessu máli sem snýr að fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum um allt land er að þeim er gróflega mismunað eftir landshlutum, mismunað í skjóli orðhengilsháttar. Fræðlsumiðstöðvarnar á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi lepja dauðann úr skel og ramba á barmi þess að hægt sé að reka þær. Þær eiga allt sitt undir árlegu samkomulagi fjárlaganefndar um styrk til reksturs þeirra og nú er svo komið að háskólanám um fjarnám í gegnum fræðslumiðstöðvarnar sem ég nefndi eru í uppnámi. Ef fer fram sem horfir leggst námið af, þetta dýrmæta nám sem mörg hundruð manns stunda nám í gegnum. Síðan er verið að mjatla til einstakra háskólasetra eða símenntunarstöðva eftir því hvað þetta heitir og hvar þær eru staðsettar á landinu, peningum í gegnum önnur ráðuneyti. Það skortir allan lagaramma utan um þetta og það sem upp úr stendur er að þeim er gróflega mismunað eftir því hvar þær eru staðsettar á landinu.