132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:37]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að gefa okkur enn eitt tækifæri til þess að ræða um flugvallarmál hér á hinu háa Alþingi. En það blasir við að augu manna eru að opnast fyrir því hversu mikilvægt innanlandsflugið er og hverjar skyldur höfuðborgarinnar eru gagnvart því að hér á höfuðborgarsvæðinu verði miðja íslenska samgöngukerfisins. Fleiri og fleiri koma fram og viðurkenna að taka verði tillit til þess að hagsmunir innanlandsflugsins og allra þeirra mörgu sem starfa á þeim vettvangi liggja undir þegar verið er að fjalla um flugvallarmálin hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem Reykjavíkurflugvöllur er miðja innanlandsflugsins á Íslandi.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem fjallað var m.a. um flugvallarmál og samgöngumál á mjög breiðum grundvelli var borin upp tillaga um að flugvöllurinn hyrfi úr Vatnsmýrinni í áföngum. Þeirri tillögu var vísað frá með miklum atkvæðamun. Landsfundurinn samþykkti hins vegar tillögu sem er algerlega í þeim anda sem ég hef unnið eftir.

Í hverju er hún fólgin? Hún er fólgin í því að leggja áherslu á að tryggja hagsmuni innanlandsflugsins og því að leita allra leiða til þess að ná sátt um þessi málefni. Það er þess vegna sem á mínum vegum og í góðu samráði við borgaryfirvöld var settur af stað vinnuhópur til þess að fara yfir alla þætti þessa máls, hvernig við tryggjum framtíð innanlandsflugsins á Íslandi. Sá vinnuhópur er núna að störfum og fer yfir alla kosti. Að sjálfsögðu lítur hópurinn fyrst á það hvernig við getum komið Reykjavíkurflugvelli vel fyrir þar sem hann er staðsettur í dag en forskriftin er jafnframt sú að skoða aðra kosti fyrir innanlandsflugið á höfuðborgarsvæðinu. Ég legg mikla áherslu á að við horfum til framtíðar.

Að sjálfsögðu horfum við til framtíðar, við erum nýbúin að byggja Reykjavíkurflugvöll upp og hann verður ekki rifinn þar upp með rótum svo auðveldlega á næstunni. Þess vegna þurfum við í þessu starfi, sem er á vegum borgaryfirvalda og samgönguráðuneytisins, að horfa rækilega til allra átta. Hvaða kostir eru það í framtíðinni í stöðunni sem við verðum að leggja upp með? Ég vil undirstrika þetta alveg sérstaklega vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að við verðum að ná bærilegri sátt um flugvöllinn en í mínum huga er aðalatriðið að við eigum að tryggja hagsmuni innanlandsflugsins og þeirra sem að því koma.

Það hafa verið og verða kallaðir til starfa á vegum þessa vinnuhóps erlendir og innlendir sérfræðingar til þess að meta alla kosti, þar á meðal væntanlega þann kost sem hv. málshefjandi nefndi, sem er Miðdalsheiði. Það hafa ýmsir kostir verið ræddir sem framtíðarmúsík í flugvallarmálum þó að í dag miðum við að sjálfsögðu við að áframhaldandi þjónusta verði til ársins 2016 frá Reykjavíkurflugvelli úr Vatnsmýrinni í það minnsta, eins og áður var nefnt. En það hafa verið nefndir kostir eins og Löngusker og Álftanes, Álftnesingar hafa nú ekki tekið því blíðlega, en við þurfum að fara yfir þetta og það er hlutverk nefndarinnar.

Hvað varðar spurninguna um það hvort til greina komi að við byggjum annan millilandaflugvöll sé ég það ekki alveg fyrir mér á þessu stigi sem möguleika. En það er hins vegar alveg hárrétt sem málshefjandi nefndi að Reykjavíkurflugvöllur sem annar af tveimur flugvöllum sem geta þjónað millilandaflugi hér á suðvesturhorninu er geysilega mikilvægur, bæði vegna rekstrar flugfélaganna og sem öryggisþáttur. Á þetta allt saman verðum við að líta og það er verið að vinna að þessu á þeim vettvangi sem ég nefndi hér fyrr og ég vona svo sannarlega að menn nái sæmilegum áttum áður en langt um líður, jafnvel hér á þingi. (Forseti hringir.) Þeir þingmenn sem áður hafa snúist algjörlega (Forseti hringir.) gegn Reykjavíkurflugvelli verða að viðurkenna mikilvægi hans.