132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[16:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að umræðan hér hefur birst mér á þann veg sem ég nefndi í upphafi, að augu manna eru mjög að opnast fyrir því hversu ríkir hagsmunir það eru að við stöndum þannig að málum að hagsmunir innanlandsflugsins séu tryggðir. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna út frá því sjónarhorni.

Engu að síður velta menn ýmsu fyrir sér og ég hlýt að vekja athygli á ómálefnalegu innleggi hv. þingmanns Björgvins G. Sigurðssonar þegar hann reynir að gera að umtalsefni og telja mönnum trú um það hér í þessum sal að ég hafi hringlað í afstöðu minni til þessa máls. Allar götur síðan í júnímánuði 1999 þegar borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kom til mín til þess að leita eftir samningum um endurbyggingu flugvallarins, hef ég unnið hörðum höndum að því að byggja upp Reykjavíkurflugvöll, fyrst í mjög góðu samstarfi við borgaryfirvöld og með öllum leyfum til þess. Ég hef síðan þá staðið í þeirri orrustu og nú er búið að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll.

Það er hins vegar í samræmi við það sem hv. málshefjandi nefndi, en hann vill skoða málið á mjög víðum grundvelli, að þegar við lítum til framtíðar þá hef ég sagt: Ef Reykjavíkurflugvöllur fær ekki frið hér í Vatnsmýrinni og ef við leysum það ekki með því að byggja flugvöll á Álftanesi eða á Lönguskerjum eða á öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þá eigum við engra kost völ annarra, ef við förum út fyrir höfuðborgarsvæðið, en að fara til Keflavíkur. Ég tel t.d. að það væri óráð að byggja flugvöll við hliðina á Keflavíkurflugvelli í Hvassahrauni.

Ef hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson vill vitna til þess sem ég hef sagt þá þarf hann að gera það rétt. (Forseti hringir.) Að öðru leyti vil ég þakka fyrir ágætu umræðu og fagna því hversu marga stuðningsmenn ég á orðið í þessum sal. (Gripið fram í.)