132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[11:09]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir þakklæti hv. þingmanna til framsögumanns, hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Umræðan er mjög nauðsynleg. Þrátt fyrir að hlutur matvælaverðs í framfærslukostnaði fari lækkandi þá skiptir hann þó töluverðu máli, sérstaklega fyrir þá tekjulægri.

En það hefur líka komið fram að lækkun á verði erlendrar myntar hefur ekki komið fram í matarverði eða þá mjög seigfljótandi. Það virðist vera þannig að hækkanir á erlendu gengi koma hratt í gegn en lækkanir afskaplega seint og seigt, þannig að öll hugsun t.d. um að lækkun á virðisaukaskatti komi fólki og sérstaklega lágtekjufólki til góða er ekki rétt. Hún mun aðallega koma verslunum til góða. Ég held því að menn ættu að hugleiða aðrar leiðir til að koma þeim fimm milljörðum sem menn ætla að lækka tekjur ríkissjóðs um með lækkun matarskattsins til lágtekjufólks með öðrum hætti, sérstaklega vegna þess að lækkun á matarverði kemur jú öllum til góða, líka hátekjufólki, þó að það sé hlutfallslega minna.

Hvers vegna er þetta svona? Getur verið að skortur sé á samkeppni? Er of mikil samþjöppun á markaðnum? Er fákeppni eða getur verið að eftirspurnin sé of mikil? Þetta er það sem við þurfum að skoða og við þurfum sérstaklega að hafa í huga að það er nýbúið að efla og setja upp nýtt samkeppniseftirlit og menn binda nú ákveðnar vonir við það.

Ég vil minna á að í mars í vor, 11. mars, keypti ég í ákveðinni lágvörumatarverslun, en þær verslanir hafa bætt kjör láglaunafólks alveg sérstaklega, einn lítra af mjólk. Hann kostaði eina krónu og svo fékk ég afslátt upp á eina krónu. Ég geri nú ekki ráð fyrir því að menn búist við að slíkt verðlag haldi lengi.