132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

14. mál
[12:56]
Hlusta

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil í örstuttu máli að þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, Guðjóni Arnari Kristjánssyni, Pétri H. Blöndal og Björgvin G. Sigurðssyni, miklum skólamönnum öllum að heyra.

Það er ljóst og kom mjög skýrt fram, ekki síst í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals, að hér er um arðbæra fjárfestingu að ræða. Auðvitað kostar eitthvað að efla náms- og starfsráðgjöf bæði í grunn- og framhaldsskólum en miðað við það mikla tjón sem samfélagið verður fyrir af völdum brottfallsins, sem skólakerfið og þjóðfélagið í heild verða fyrir, og kostnaðinn við að nemendur ljúka ekki námi að ógleymdri brotlendingunni fyrir nemandann að hafa ekki staðið sig í því sem hann tók sér fyrir hendur hverjar sem ástæðurnar eru, þá er alveg ljóst að um arðbæra fjárfestingu er að ræða. Það er fjárfesting sem kemur til með að skila sér ef menn ráðast í að efla þetta starf innan grunn- og framhaldsskólanna.

Flutningsmönnum barst ályktun frá félagsfræðiskor félagsvísindadeildar Háskóla Íslands vegna þessa máls og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við sem vinnum að menntun náms- og starfsráðgjafa erum sannfærð um að unnt er að minnka brottfallið með öflugri náms- og starfsráðgjöf. Raunar eru vísbendingar í nýlegri rannsókn Guðbjargar Vilhjálmsdóttur um að svo sé. Við teljum einnig að þó að einhverju þurfi að kosta til eflingar náms- og starfsráðgjöf muni á móti draga úr því ómælda tjóni sem núverandi staða er að valda einstaklingum og samfélaginu öllu.“

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til hv. menntamálanefndar þar sem ég vona að það fari til hefðbundinnar umsagnar og fái síðan brautargengi út úr nefndinni að lokinni meðferð hennar á því.