132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:26]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um frumvarpið sem hér liggur fyrir og kem ég nánar að því á eftir. Ég hef aðeins athugasemd um það sem beindist að strandsiglingum varðandi ríkisstyrk til þess að taka upp strandsiglingar aftur. Ég verð að segja að þó að ég sé einarður stuðningsmaður strandsiglinga þá efast ég um það í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja að strandsiglingar eigi sér mikinn hljómgrunn meðal útgerða vegna þess að við sjáum að atvinnurekendur víða úti á landi hafa frekar notað landflutninga heldur en sjóflutninga í ljósi þeirrar staðreyndar að dýrara er að flytja með bílum heldur en skipum. Ég hef varpað eftirfarandi fyrirspurn áður fram. Hvernig má það gerast að t.d. Vestfirðingar nota fremur landflutningana þrátt fyrir að það sé 30–40% dýrara að flytja 40 feta gám landleiðina en sjóleiðina? Getur ríkisstyrkt skipaútgerð haft þau áhrif að einhver straumhvörf verða á þessum flutningum? Ég efa það stórlega. Það þarf eitthvað meira að koma til.

Ég endurtek að ég er einlægur stuðningsmaður þess að strandsiglingar verði teknar upp að nýju. En ef ríkisstyrkt skipaútgerð breytir í einhverju hugarfari atvinnurekenda og framleiðenda úti á landi þá er það mál sem þarf frekari skoðunar við. En ég spyr: Hvers vegna lagðist þá skipaútgerð af?