132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:13]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er náttúrlega ekki verið að leggja til að setja einhverja silkihúfu ofan á aðra sem fyrir er heldur verður þessu stýrt af samgönguráðuneytinu. Ég trúi því og treysti að þar muni menn leita leiða til hagkvæmni og til að fá það mesta út úr fjármunum til að tryggja öryggi og þjónustu við hina dreifðu byggðir.

Síminn seldur og þá sé nánast búið að slátra mjólkurkúnni er náttúrlega ekki rétt vegna þess að það fjármagn, hluti af fjármagninu sem fæst fyrir Símann, er notað til að greiða niður erlendar skuldir og þar um leið er sparað mikið fé í vaxtagreiðslur sem annars hefði þurft að inna af hendi. Það kemur því á móti og til langtíma litið er þetta rétt og eðlilegt að ríkið losi sig við Símann og ég er sannfærður um að þarna verður miklu betri þjónusta.

Við skulum ekki gleyma heldur einum þætti í þessu líka sem eru t.d. sendingar í gegnum gervihnetti til sjómanna á hafi úti sem mun auðvitað skila sér líka í auknu öryggi. Einnig má benda á að GSM-kerfið er náttúrlega stórt öryggismál því að það hefur oftar en ekki komið fyrir að verið er að leita að aðilum sem hafa verið með GSM-síma á sér og því hefur verið hægt að miða þá aðila út og finna þá ef þeir hafa týnst, sem dæmi eru um.

En ég held, virðulegi forseti, að þetta mál sé hið besta mál og eins og ég segi, þetta er eitt af þeim mestu málum sem hafa verið lögð fram hér um nokkurn tíma á sviði samgöngumála. Auðvitað eru mörg stór mál sem hafa verið lögð fram eins og samræmd samgönguáætlun sem varðar sjó, land og flug. Það var stóra skrefið sem stigið var.

Hv. þingmaður er mjög efins um að einhver framkvæmd verði úr því sem hér kemur fram og efast um dagsetningar sem settar eru. En, hv. þingmaður, orð eru til alls fyrst.