132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:45]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Umhverfi íslensks vinnumarkaðar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Auknar verklegar framkvæmdir hafa kallað á vinnuafl sem er umfram það sem innlendur vinnumarkaður stendur undir. Því hefur þurft að leita út fyrir landsteinana eftir fólki til að takast á við störf sem fylgja framkvæmdagleði landans. Við það er ekkert að athuga. Miklu fremur ættum við að fagna því að geta fengið erlenda þekkingu inn í landið og veitt faglærðu iðnverkafólki atvinnu og tækifæri til að afla sér lífsviðurværis sem það hefur ekki getað í heimalöndum sínum. Störf þeirra skjóta jafnframt styrkari stoðum undir íslenskt efnahagslíf og hagsæld í landinu öllu.

Íslenskt atvinnulíf nýtur þess að vel er búið að íslensku vinnuafli og sterk hefð er fyrir því að stéttarfélög standi fast við bak félagsmanna sinna. Borin er virðing fyrir umsömdum réttindum starfsmanna. Jafnframt hafa aðilar vinnumarkaðarins borið gæfu til að skapa starfsumhverfi hjá fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra sem bera merki sanngirni og sveigjanleika. Þá hefð viljum við standa vörð um.

Starfsmannaleigur eru nýtt fyrirbrigði hér á landi og ekki ljóst hvernig slík starfsemi hefur aðlagast íslenskri hefð á vinnumarkaði. Aðalatriðið er að starfsumhverfi erlends vinnuafls sé í samræmi við íslenska löggjöf um störf þeirra sem koma tímabundið til starfa hér á landi á vegum erlendra vinnuveitenda og virt séu ákvæði um lágmarkslaun. Benda má á að hér á landi gilda nú þegar skýrari reglur um lágmarkslaun erlends vinnuafls en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Meginhugsunin á að vera sú að grundvallargildi íslensks vinnumarkaðar gildi um erlent vinnuafl, það sé ekki misnotað og vanvirt með nokkrum hætti. Það verður ekki liðið.

Að lokum er mikilvægt að ítreka það sem kom fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra hér á undan að aðilar vinnumarkaðarins eru að skoða íslenska löggjöf með tilliti til starfsemi erlendra starfsmannaleiga og er að vænta niðurstöðu á næstu dögum. Við skulum spara stóru orðin þar til niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir.