132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Virðisaukaskattur.

12. mál
[12:31]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson. 1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna [um virðisaukaskatt] orðast svo: Fólksflutningar og afnotagjald eða aðgangseyrir sem innheimtur er fyrir notkun samgöngumannvirkis. Flutningur á ökutækjum með ferjum, sem eru í beinum tengslum við fólksflutninga, telst til fólksflutninga samkvæmt þessum tölulið.

2. gr. 5. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort sem þau eru seld prentuð eða á rafrænu formi.

3. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.“

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna innheimtu virðisaukaskatts af samgöngumannvirkjum annars vegar og útgáfu blaða og tímarita hins vegar. Í 1. gr. er gerð tillaga um að sala aðgangs og afnot af samgöngumannvirkjum, t.d. göngum, verði undanþegin virðisaukaskatti. Okkur sem flytjum þetta frumvarp eða stöndum fyrir því finnst ósanngjarnt að ríkið innheimti virðisaukaskatt fyrir gjöld sem reidd eru af hendi fyrir notkun samgöngumannvirkis. Hið opinbera innheimtir veruleg gjöld í dag með ýmsum álagningum á farartæki og eldsneyti. Okkur ætti öllum að vera kunnugt um þau gjöld. Við finnum öll fyrir þeim. Engin rök mæla með því að sanngjarnt sé að leggja aukaálögur í formi virðisaukaskatts á ferðir slíkra ökutækja þegar þau fara um samgöngumannvirki eða með ferjum.

Virðulegi forseti. Eina samgöngumannvirki landsins í dag þar sem innheimt eru afnotagjöld eða veggjöld eru göngin undir Hvalfjörð. Þau göng voru tekin í notkun 11. júlí árið 1998. Hið opinbera endurgreiddi á sínum tíma virðisaukaskatt vegna kostnaðar við gerð ganganna en hefur frá því að þau voru opnuð innheimt 14% virðisaukaskatt af veggjöldum sem ferðalangar greiða þegar þeir fara um þetta mannvirki. Frá því að göngin voru opnuð þann 11. júlí árið 1998 voru árleg veggjöld á bilinu 770–900 millj. kr. á ári. Virðisaukaskattur var á bilinu 114–130 millj. kr. á ári.

Þann 1. apríl síðastliðinn voru gjöldin í göngin lækkuð verulega eða um allt að 38% fyrir þá sem nota þau mest og nýta mesta afsláttinn. Tölurnar hafa því sennilega eitthvað breyst en á móti hefur komið að umferð um göngin er alltaf að aukast og hefur t.d. aukist verulega á þessu ári.

Við vitum að Hvalfjarðargöngin eru merkilegt mannvirki og þau hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem samgöngubót sem hefur komið landsmönnum öllum til góða. Þau hafa stytt vegalengdir og aukið umferðaröryggi og styrkt byggðarlög. Enginn vafi leikur á því að hið opinbera hefur sparað verulegar fjárhæðir sem annars vegar hefðu einkum runnið til viðhalds og reksturs vegarins fyrir Hvalfjörð. Við höfum einnig sparað mikla fjármuni með því að slysatíðni á veginum fyrir Hvalfjörð er núna nánast engin og hefur ekki verið frá því að göngin voru opnuð. Fyrir tíma Hvalfjarðarganga voru alvarleg umferðarslys sem leiddu til örkumla og dauða árlegur viðburður á veginum fyrir Hvalfjörð. Það hefur heldur ekki orðið neitt slys í göngunum sem valdið hefur skaða á fólki og engin dauðaslys heldur.

Hvalfjarðargöngin hafa orðið mikilvæg forsenda fyrir því að styrkja Vesturland sem atvinnusvæði en þau hafa líka komið öðrum landshlutum til góða, höfuðborgarsvæðinu, einnig Norðurlandi og jafnvel Suðurlandi og Reykjanesi. Göngin hafa auðveldað íbúum á höfuðborgarsvæðinu sem nýta sér dýrmæta möguleika til útivistar og ferðalaga um Vesturland, Vestfirði og Norðurland.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt hér ótal marga jákvæða þætti og eflaust mætti tína þá fleiri til en allir þessir jákvæðu þættir hljóta þó að gera það að verkum að innheimta virðisaukaskatts af veggjöldum er ósanngjörn. Hún er mjög ósanngjörn og þess vegna ætti að leggja hana af.

Við sem flytjum frumvarpið teljum að þetta litla frumvarp okkar gæti orðið verulegt skref í þá átt að lækka gjöldin í Hvalfjarðargöngin enn frekar. En við förum heldur ekki leynt með þá skoðun okkar að við teljum að ríkið ætti hreinlega að yfirtaka göngin alfarið hið fyrsta vegna þess að þetta merka mannvirki hefur sannað gildi sitt svo um munar.

Fram til þessa hef ég verið mjög efins um að ríkið ætti að yfirtaka þessi mannvirki. Ástæðan er sú að ég er mjög fylgjandi því að það sé skoðað að fara í einkaframkvæmdir þegar um miklar vegabætur er að ræða, sérstaklega þegar um er að ræða vegabætur sem við vitum að munu skila okkur sem búum í landinu miklum ávinningi.

Ég mælti m.a. fyrir þeim hugmyndum í fyrra í opinberri umræðu að íhuga ætti að fara út í einkaframkvæmdir á Reykjanesbrautinni og jafnvel líka yfir Hellisheiði. Þarna er um að ræða tvo mjög fjölfarna vegi. Mikil umferð er á þeim vegum og þeir hafa einnig verið með hættulegustu vegum landsins. Því miður verður Hellisheiðin enn í dag að teljast mjög hættulegur vegur þó að þar hafi verið gerðar miklar umbætur. En samt hefur mikið breyst. Eins og ég nefndi hafa verið gerðar umbætur á Hellisheiðinni og meiri umbætur verða gerðar þar. Einnig hafa verið gerðar verulegar umbætur á Reykjanesbraut með tvöföldun hennar og á að halda því ágæta verki áfram. Allar þessar framkvæmdir verða gerðar fyrir opinbert fé, m.a. fyrir tilstilli þess fjármagns sem fékkst fyrir sölu Landssímans nú á dögunum.

Ég vil nota þetta tækifæri, virðulega forseti, til að leyfa mér að viðra þá hugmynd að flytja ætti breytingartillögu við það frumvarp sem liggur nú fyrir Alþingi um hvernig landssímapeningunum skuli varið. Gera ætti breytingartillögu þannig að hluta af landssímapeningunum skuli hreinlega varið til þess að greiða niður þær skuldir sem nú hvíla á Hvalfjarðargöngunum, annaðhvort að ríkið yfirtaki mannvirkið alfarið eða þá að sá tími verði styttur verulega sem við þurfum áfram að búa við þá áþján, sem ég vil kalla svo, að þurfa að greiða vegtoll fyrir að fara í gegnum umrætt mannvirki. Ég tel að sá vegtollur sé á margan hátt alvarlegur hemill fyrir okkur sem þjóð, því að eins og ég sagði áðan hefur það margsannað sig að þetta mannvirki er til mikilla hagsbóta fyrir alla þjóðina. Ég tel einfaldlega að eins og mál hafa þróast, þ.e. að ríkið virðist ekki hafa vilja til þess að fara út í frekari einkaframkvæmdir að sinni í því skyni að endurbæta vegakerfi okkar landsmanna, þá tel ég einfaldlega rangt að við séum með tollmúr á þessum eina stað. Ég tel að það sé ósanngjarnt og óréttlátt og að vegtollurinn sé alvarlegur hemill á framþróun t.d. atvinnulífs á mjög mikilvægu svæði fyrir okkur öll í efnahagskerfi landsmanna, sem er náttúrlega svæðið norðan Hvalfjarðar og alla leið norður í land og vestur á firði og jafnvel víðar um landið. Þegar tillit er tekið til þessa og til þeirra þátta sem ég nefndi áðan, þ.e. sá fjárhagslegi ávinningur sem þegar hefur orðið af gerð og notkun þessa mannvirkis, þá tel ég að það sé einfalt sanngirnismál að við leitum öll leiða til þess að samfélagið allt í heild sinni yfirtaki þetta mannvirki og sjái um það til framtíðar.

Með þessu er ég þó ekki að slá á þær hugmyndir að hér með eigi að hætta öllum einkaframkvæmdum við samgöngumannvirki, alls ekki. Það má ekki skilja orð mín svo. Hugmyndir um slíkar framkvæmdir annars staðar á landinu eru þá seinni tíma mál sem okkur ber að skoða að sjálfsögðu og jafnvel fara út í ef við teljum að sátt geti náðst um slíkt.

Virðulegi forseti. Í 2. gr. frumvarpsins, svo við víkjum nú að öðru, er talað um allt annað mál en Hvalfjarðargöng. Við tókum þetta hins vegar með í frumvarpinu vegna þess að einnig er um að ræða breytingar á lögum um virðisaukaskatt en ekki í tengslum við samgöngumannvirki. Hér erum við að tala um útgáfu blaða og tímarita.

Í 2. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um að 5. tölulið 14. gr. laganna um virðisaukaskatt verði breytt þannig að sala þeirra blaða og tímarita sem þar er kveðið á um falli undir 14% virðisaukaskatt, þ.e. öll þessi útgáfa falli undir sama virðisaukaskatt hvort heldur verið er að gefa út og selja efni á prenti eða á rafrænu formi. Í dag er það þannig að 14% virðisaukaskattur er lagður á útgáfu blaða og tímarita ef hún er á pappír en hins vegar ber svo undarlega við að það er 24% virðisaukaskattur ef útgáfan er einnig boðin til sölu á netinu. Þetta er ósamræmi sem styðst ekki við nein rök og það rýrir möguleika útgáfufélaga til að selja efni sitt á rafrænu formi með hjálp tölvutækni.

Við sjáum og vitum öll að með bættri tækni og aukinni flutningsgetu um internetið verður það sífellt algengara að blöð og tímarit séu boðin til sölu á rafrænu formi, að viðskiptavinum sé gefinn kostur á að kaupa áskrift eða aðgang að blöðum og tímaritum í gegnum netið, hægt sé að hlaða niður blöðum í gegnum netið og lesa þau á tölvuskjá og hugsanlega taka útskrift af slíkum útgáfum. Sá dreifingarmáti á blöðum og tímaritum auðveldar og eykur möguleika neytenda, sem búa t.d. fjarri útgáfustöðum annaðhvort innan lands eða erlendis, á að njóta útgefins efnis um leið og það kemur út, þ.e. í gegnum tölvur. Við megum ekki gleyma því að mjög margir Íslendingar búa og starfa erlendis. Ég tel að það sé einfalt réttlætismál að við lagfærum þetta misræmi í virðisaukaskattslögunum þannig að þetta falli allt saman undir sama þrep í virðisaukaskatti.

Virðulegi forseti. Ég hef kynnt þessi mál í stuttu máli. Ég vil að lokum ítreka að lagt er til að þessi lög öðlist gildi 1. janúar 2006, þ.e. um næstu áramót en þar er þó tekið mið af uppgjörstímabili virðisaukaskatts.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, leggja til að málið verði sent til meðferðar hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.