132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:46]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að við gætum lært margt af frændum okkar í Færeyjum um það hvernig þeir fara með þessa ráðgjöf, hvernig þeir ræða hana sín á milli, hvernig umræðan fer fram þar í þjóðfélaginu og hvernig ákvarðanirnar eru síðan teknar.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á að hér er verið, eins og hann sagði, að straumlínulaga umræðuna. Verið er að beina henni í raun á þann veg að aldrei koma neinar upplýsingar frá Hafrannsóknastofnuninni á Íslandi nema í gegnum forstjórann eða valda yfirmenn sem þeir sem spyrja vita kannski fyrir fram að muni segja réttu hlutina. Ég hef sjálfur lent í því, af því að ég hef starfað í sjávarútvegsnefnd í tvö ár, að þegar við höfum beðið um að fá sérfræðinga stofnunarinnar á okkar fund höfum við ekki fengið þá sérfræðinga á fund nefndarinnar nema með því skilyrði að forstjórinn væri með. Þetta er náttúrlega mjög alvarlegur hlutur. Þetta er gríðarlega alvarlegur hlutur, að forstjóri stofnunarinnar skuli þurfa að koma með sérfræðingum sem eru í vinnu hjá þjóðinni, hámenntuðum sérfræðingum með mikla reynslu, og að þessir sérfræðingar séu nánast ritskoðaðir þegar þeir koma og mæta fyrir þingnefnd til að sitja þar fyrir svörum. Þetta er náttúrlega alls ekki boðlegt. Ég hef mótmælt þessum vinnubrögðum í sjávarútvegsnefnd en því miður hafa formenn nefndarinnar á hverjum tíma ekki viljað taka tillit til þeirra mótmæla, því miður.

Það er líka bjargföst skoðun mín að til þess að breyta einhverju í þessu öllu saman sé þörf á því að skipta þessum mönnum öllum út. Þeir hafa gerst sekir um mörg alvarleg mistök á undanförnum árum, tel ég vera, og það verður mjög erfitt að fá þessa menn til að breyta um starfshætti, fá þá til að hugsa öðruvísi. Þeir bera ákveðna ábyrgð og þeir munu ekki vera viljugir til þess að viðurkenna að þeir hafi gert mistök og að tími sé kominn til þess að gera hlutina öðruvísi. Þess vegna tel ég að í raun sé ekki um neitt annað að ræða en að skipta þessum mönnum út og fá til aðra og nýrri menn (Forseti hringir.) sem eru reiðubúnir að hugsa hlutina upp á nýtt.