132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér hefur farið fram mjög góð umræða um fiskveiðistjórn. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að skipta má þessari umræðu í tvennt. Það er annars vegar eignarhaldið og síðan hvernig við stjórnum fiskveiðunum.

Við í Frjálslynda flokknum höfum verið á því að eignarhaldið eigi að vera hjá þjóðinni og ég vona að Samfylkingin haldi einnig við þá skoðun. En ég tel að við þurfum að ræða annað og það er þegar menn fara að skilgreina eða koma með þessi hugtök, þ.e. annars vegar eignarhald og svo er komið eitthvað sem heitir nýtingarréttur og annað sem er varanlegur nýtingarréttur. Mér finnst þetta oft vera hálfgerður orðhengilsháttur. Hvað ætla menn að gera með að eiga fisk í sjónum ef þeir ætla ekki að nýta hann? Ef menn tala um varanlegan nýtingarrétt um aldur og ævi er það ekkert annað en annað orð yfir sama hlutinn, þ.e. eignarhald.

Um stjórn fiskveiða hins vegar er hægt að deila og hvernig menn stýra. Það er annars vegar hægt með kvótum og hins vegar með því að stýra sókninni. Við í Frjálslynda flokknum höfum ólíkt öðrum flokkum lagt áherslu á að vænlegra sé að stýra veiðum með því að stýra sókninni.

Í dag fór hér fram umræða um að hægt væri að flytja aflamarkið til, til Suðurlands frá Vestfjörðum. Vert er að skoða og ræða það út frá líffræðilegum forsendum. Auðvitað er ekkert mál að flytja aflamark á blaði frá Vestfjörðum til útgerðar á Suðurnesjum. En síðan er það hitt málið. Flytja menn fiskinn af fiskimiðunum fyrir vestan eða á Norðausturlandi og til miða út af Suðurlandi? Nei, það gera menn ekki svo glatt. Umræða um að flytja aflamark getur því leitt til þess að allur kvótinn safnast fyrir þar sem peningarnir eru og fiskimiðin, m.a. þar sem mikið aflamark safnast fyrir, segjum í Reykjavík, geta verið ofveidd á meðan fiskimiðin t.d. út af Vestfjörðum þar sem lítið aflamark er, eins og það er skilgreint — það er náttúrlega erfitt fyrir fólk að fylgjast með þessari umræðu því komin eru alls konar kerfi, litla kerfið, stóra kerfið og aflamark og sóknarmark — en staðreyndin er sú að þetta getur leitt til þess, ef of mikil samþjöppun verður, að mið eða lífríki á ákveðnum svæðum í kringum landið verða einfaldlega vannýtt. Það er eitt af því sem menn ættu að hugleiða.

Hvað varðar þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á Hafró þá tel ég hana mjög réttmæta, sérstaklega í ljósi þess að komið hafa fram kenningar, t.d. sú sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson minntist á um að golþorskstofninn skipti einhverju máli. Ég efast um það í sjálfu sér. En þetta er nokkuð sem á að rannsaka. Komið hafa fram kenningar frá Hafrannsóknastofnun og frá Guðrúnu Marteinsdóttur fiskifræðingi um það. Þegar Hafrannsóknastofnun heldur fram að þessi hluti stofnsins skipti svo miklu máli, hvers vegna tekur þá stofnunin ekki af skarið og segir að vernda eigi þennan stofn og að þess vegna ættum við ekki t.d. að leggja niður sóknarkerfi smábátanna því það leiðir til meiri sóknar í stærri fisk? Hvers vegna tökum við ekki upp kerfi sem leiðir til þess að dregið sé úr sókn í þennan stóra verðmæta fisk að mati Hafró? Það er ekki gert. Maður furðar sig á því hvers vegna veiðiráðgjöfin fylgir ekki kenningum Hafrannsóknastofnunar. Það er alveg með ólíkindum hvernig þetta er.

Hér í umræðunni hefur komið fram að menn hafa spáð vitlaust fyrir um stærð fiskstofna og það er alveg rétt. Það er ekki einungis á Íslandi sem menn hafa spáð vitlaust fyrir um stærð fiskstofna heldur einnig í Færeyjum. Það sem hefur gerst í Færeyjum er að menn hafa ekkert farið eftir ráðleggingum fiskistofu Færeyinga. Þeir hafa haldið sínu sóknarmarki. Það sem hefur iðulega gerst er að ef menn hafa haldið sókninni og veitt umfram ákveðna ráðgjöf þá hefur það verið merki um að fiskstofnarnir hafa verið vanáætlaðir. En það hefur líka komið fyrir að ráðlögð veiði eða kvótasetning færeysku hafrannsóknastofnunarinnar hafi verið misreiknuð og menn hafi ekki náð að veiða allan aflann. Þá hefur komið upp úr dúrnum að stofninn hefur verið ofmetinn. Það virðist vera svo að í sóknarkerfi nái veiði miklu frekar að sveiflast með lífríkinu.

Ég vil aðeins minnast á þá stýringu sem hefur verið á síðustu árum og þá byggðaröskun sem hefur orðið. Ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar eru oft og tíðum mjög sérstakt plagg fyrir líffræðing að lesa, þ.e. skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Þetta er eins og verið sé að lesa bókhald. Það byrjar á Þ, á þorskinum og þegar hann er búinn og menn eru búnir að fylgja vexti út frá einhverjum línuritum fyrri ára þá er farið í Ý, og farið í ýsuna. En það er alveg óháð því sem er að gerast í þorskinum og síðan halda menn svona áfram þannig að það er eins og hver kafli eigi sitt sjálfstæða líf og þeir spila ekkert saman. Það er alveg með ólíkindum fyrir líffræðing að horfa á þetta. Það sem mér hefur alltaf þótt mest spennandi rannsóknarviðfangsefni fyrir Hafrannsóknastofnun að takast á við er að rannsaka fiska sem eru ekki veiddir. Þá geta menn skoðað sveifluna á fiskstofnunum, náttúrulega sveiflu sem er alveg óháð veiðum, t.d. hjá fisktegund eins og spærlingi. Hvernig sveiflast hún og er hún að sveiflast? Ég reikna með því. Þó svo að tegundin sé ekki veidd þá vex hún ekkert óendanlega. Þetta er mjög áhugaverð líffræðileg spurning ef menn skoða áhrif veiða eiga þeir að skoða þá dýrastofna sem alls ekki eru veiddir, þ.e. hvernig þeir sveiflast og hvort þeir sveiflist í takt við þorskstofninn eða hvað eina.

Þetta er einmitt vandamálið hjá Hafrannsóknastofnun, þ.e. að vera alltaf að spá í kvóta, spá í kvótann á næsta ári í staðinn fyrir að spá í grunnrannsóknir, spá í lífríkið og safna gögnum um grundvallarþætti lífríkisins og fæðuframboð og hvernig mismunandi stofnar sveiflast og hafa áhrif hver á annan.