132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:18]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að bensínverð hafi hækkað um allan heim og það þurfi að lækka gjöld ríkisins á bensín og olíu. Nú er það svo að gjöld ríkisins á bensíni og olíu eru krónutala sem með virðisaukaskatti er áfram krónutala og hefur ekkert hækkað. Hlutur ríkissjóðs í olíuverði hefur stöðugt verið að falla hlutfallslega undanfarna mánuði þegar hækkunin verður erlendis. Skattlagning ríkissjóðs vinnur þannig mjög mikið á móti þeim sveiflum sem verða á olíuverði.

Svo er það annað. Sú hækkun sem er á olíuverði, líklega varanlega eins og Seðlabankinn bendir á, er vegna þess að neyslan hefur stóraukist í tveimur fjölmennustu löndum heims, Indlandi og Kína. Ég sé ekki að sá þáttur muni nokkuð stöðvast. Hv. þingmaður er að leggja það til að niðurgreiða þá takmörkuðu auðlind sem olían er af hendi ríkissjóðs, lækka verðið á Íslandi til að mæta aukinni notkun í Kína og á Indlandi. Ég tel það mjög varasamt.

Svo vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort hann horfi ekki til umhverfissjónarmiða — það má líta á skattlagningu íslenska ríkisins á olíu og bensín sem eins konar mengunarskatt — og hvort hann ætli að fara að lækka mengunarskattinn í þeirri stöðu sem er á jörðinni í dag, alla vega í hugum þeirra sem trúa á koldíoxíðmengunina og hitnun jarðar.