132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Göngubrú yfir Ölfusá.

38. mál
[12:39]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hérna er um að ræða hið ágætasta mál og það er sjálfsagt að framkvæma slíka úttekt á kostum og göllum slíkrar göngubrúar. En málið er miklu stærra og tengist enn stærra máli sem er að sjálfsögðu ný brú yfir Ölfusá. Það er samstaða um það hvar sú brú á að vera en nokkur brúarstæði komu til greina. Eitt af brýnustu hagsmunamálum þessa svæðis er ný brú yfir Ölfusá. Samhliða breyttum, breikkuðum og bættum Suðurlandsvegi er þessi nýja brú mjög aðkallandi. Þarna myndast mjög harðir umferðarhnútar. Það hægir allt of mikið á umferð þar sem hún liggur mjög óheppilega, þungaflutningarnir fara um miðju bæjarins sem skapar óhagræði, sérstaklega í ljósi þess að íbúafjölgun á þessu svæði er ævintýraleg. Líklega er íbúafjölgunin þessa mánuði og missiri, á Selfossi og Árborgarsvæðinu öllu að verða ein sú mesta sem sögur fara af á síðari tímum þar sem á þessu eina ári stefnir í að hún verði um 7% í Árborg. Þetta er ævintýraleg fjölgun og felur í sér feikileg sóknarfæri fyrir byggðirnar. Til að byggja undir þessa þróun og til að hún haldi áfram og nái góðri fótfestu þarf að sjálfsögðu fyrst og fremst að bæta samgöngurnar. Suðurlandsvegur er löngu hættur að standa undir þessari umferð enda hefur umferð um hann aukist um 70% á síðustu tíu árum og Ölfusárbrú er löngu, löngu sprungin líka. Það sanna og sýna umferðarteppurnar sem á henni myndast.

Þess vegna vildi ég spyrja hv. 1. flutningsmann að þessari ágætu tillögu, um leið og ég vil harma að hann skuli ekki hafa boðið öðrum þingmönnum kjördæmisins að flytja hana með til að ná meiri þunga á málið og sem er nú siður þegar kemur að samgöngumálaflutningi, hvort það væri ekki réttara að þrýsta á að ný brú yfir Ölfusá færi á samgönguáætlun og yrði byggð hið fyrsta eins og íbúarnir heima þrýsta mjög á og hv. þingmaður heyrði mikið um (Forseti hringir.) á fundi okkar með stjórn SASS í fyrradag.