132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Reykjavíkur norður gerði málefni öryrkja að umtalsefni og beinir til mín nokkrum spurningum.

Í fyrsta lagi um fjölgun öryrkja. Þegar bornir eru saman þeir sem metnir voru til örorku og örorkustyrks fyrstu sex mánuði áranna 2003, 2004 og 2005 kemur í ljós, samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun ríkisins, að körlum í þessum hópi fjölgar um 27,2% og konum um 31,2%. Það er verulega umfram það sem búast mætti við, að teknu tilliti til lýðfræðilegra breytinga. Séu teknir karlar á aldursbilinu 25–59 ára fjölgar þeim um 24,8% en konum á sama aldursbili fjölgar um 40%. Vísbendingar eru um að eitthvað sé að hægja á fjölguninni á þessu ári en samt sem áður hefur örorkulífeyrisþegum fjölgað úr 12.050 í 12.627, miðað við útgreiðslu TR á fyrstu níu mánuðum ársins. Fjölgunin nemur 4,8% sem svarar til þess að öryrkjum hafi fjölgað um þrjá hvern virkan dag frá áramótum til 1. október.

Meðaltalsfjölgun, samkvæmt greiðslum Tryggingastofnunar, borið saman við sama tíma í fyrra er 7,1%. Ellilífeyrisþegum sem að mati sérfræðinga fjölgar hratt þessi árin fjölgar á sama tímabili um 1,8%.

Virðulegi forseti. Öryrkjum er að fjölga og af hverju? Mín skoðun er að hið læknisfræðilega örorkumat þurfi endurskoðunar við, til að gera langa sögu stutta.

Hvers vegna er brotið ítrekað gegn meginreglum Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra, við gerð skýrslu um fjölgun öryrkja, ákvarðanir um breytingar á stofnunum, reglugerðum, örorkubótum o.s.frv. án samráðs við félög fatlaðra og heildarsamtök þeirra? Ég mótmæli því að um sé að ræða samráðsleysi. Ráðuneytið hefur kappkostað að hafa samráð við öll þau félagasamtök sem starfa að málefnasviðum sem heyra undir ráðuneytið. Sem dæmi má nefna samráð vegna sameiningar Heyrnar- og talmeinastöðvar og Sjónstöðvar. Þau áform hafa verið kynnt á fundi með Blindrafélaginu, Félagi heyrnarlausra, Foreldrafélagi heyrnardaufra barna, Félaginu Heyrnarhjálp, Daufblindrafélagi Íslands og Landssambandi eldri borgara. Fyrirhugaður er annar fundur með þeim félagasamtökum nú eftir helgina til að fara yfir málið.

Félagasamtök hafa átt greiðan aðgang að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og hafa margoft komið á fund hans og sérfræðinga ráðuneytisins um hin ýmsu mál. Ég viðurkenni vissulega að samstarfið við Öryrkjabandalagið hefur stundum verið skrykkjótt síðustu missirin en núverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands var á fundi hjá mér í gær og óskaði eftir góðu samstarfi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Það er einlæg von mín að svo geti orðið.

Síðan er spurt hvort öryrkjar séu fleiri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar og útgjöld vegna örorkulífeyris meiri sem hlutfall af landsframleiðslu. Öryrkjar eru sem stendur færri hér en annars staðar á Norðurlöndum og útgjöldin mæld sem hlutfall af landsframleiðslu því lægri. En útgjöld hins opinbera og lífeyrissjóðanna fara hraðvaxandi. 70% útgjaldaaukningar undanfarið má rekja til fjölgunar öryrkja. Öryrkjum fjölgar hér örar en annars staðar á Norðurlöndum, einkum yngri aldurshópum eins og staðfest hefur verið. Borið saman við Noreg fjölgar öryrkjum hér mjög mikið.

Hvernig skýrir ráðherra að svo fáir komast aftur út á vinnumarkaðinn? Telur hann að hinar óhóflegu tekjutengingar valdi þar nokkru og skerðingarreglugerðir eins og hann setti 4. október síðastliðinn? Telur ráðherra eðlilegt að atvinnurekandi þurfi að greiða hjálpartæki fatlaðra á vinnustað?

Ástæður þess að fáir öryrkjar fara út á vinnumarkað geta verið ýmsar. Tekjutenging bóta hefur áreiðanlega þar einhver áhrif.

Hvað varðar reglugerð nr. 916/2005 frá 4. október þá felur hún ekki í sér skerðingarreglur. Hún fjallar eingöngu um að þeir sem leggja fram tekjuáætlun sem reynist lægri en rauntekjur beri ekki meira úr býtum en þeir sem tekst að leggja fram raunhæfa áætlun í upphafi. Þar er aðeins um eðlilegt jafnræði milli bótaþega að ræða. Hins vegar höfum við, í samvinnu við Öryrkjabandalagið, verið að fara yfir framkvæmd þeirrar reglugerðar.

Samkomulagið við öryrkja frá því í mars 2003 snerist um þrjú meginatriði:

Í fyrsta lagi að fá viðurkennt og vinna því skilning að þeim sem yngstir greindust öryrkjar yrðu bætt þau örlög. Við það var staðið.

Í öðru lagi átti að tvöfalda grunnlífeyri þessa hóps. Við það var staðið. Í þriðja lagi átti að verja til verkefnisins um einum milljarði kr. Við það var staðið.

Til upplýsingar skal tekið fram að á næsta ári fara sennilega um 1.450 millj. kr. í aldurstengdu örorkubæturnar.

Að lokum. Bílastyrkur verður ekki afnuminn, hvorki hjá þeim 4.000 ellilífeyrisþegum sem styrktir eru til að reka bíla sína né 2.650 öryrkjum.