132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Seðlabanki Íslands.

44. mál
[15:44]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Búið er að fara vel yfir hvað felst í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, lögum sem eru frá árinu 2001. En segja má í stuttu máli að frumvarp það sem verið er að leggja fram og ræða hafi það að markmiði umfram allt að tryggja eins og hægt er að faglega sé staðið að ráðningu seðlabankastjóra og beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum.

Eins og 1. flutningsmaður, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gerði grein fyrir eru það öðru fremur þessi tvö aðalatriði sem vert er að draga fram í frumvarpinu, þ.e. að ákvarðanir um beitingu á stjórntækjum bankans í peningamálum verði teknar af svokallaðri peningastefnunefnd. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja í peningamálum geta verið vaxtaákvarðanir bankans, tilgreind viðskipti við lánastofnanir, ákvörðun bindiskyldunnar, viðskipti á gjaldeyrismarkaði sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Allt eru þetta ákvarðanir sem skipta að sjálfsögðu miklu máli um hvernig peningastefnan í landinu er og hvernig okkur gengur að uppfylla þau markmið sem við höfum sett okkur. Og auðvitað eiga þessar ákvarðanir peningastefnunefndar að grundvallast á markmiðum bankans og eins vönduðu mati og hægt er á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í peningastefnunefnd sitji stjórn bankans og þrír af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu í peningamálum. Gert er ráð fyrir að nefndin fundi reglulega og fyrir fram sé vitað hvenær hún fundi. Talað er um að hún fundi að lágmarki átta sinnum á ári en getur að sjálfsögðu fundað oftar ef þarf og að opinberlega sé gerð grein fyrir þeim ákvörðunum sem peningastefnunefndin tekur og hvaða forsendur það eru sem hún leggur til grundvallar þeim ákvörðunum sínum. Síðan er þó gert ráð fyrir að peningastefnunefnd geti ákveðið að skýra ekki frá ákveðnum ákvörðunum um viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr. gildandi laga

Í öðru lagi er í 2. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að auglýst skuli opinberlega eftir umsóknum um stöðu bankastjóra og ef um er að ræða stöðu formanns bankastjórnar skal taka það fram sérstaklega. Í lagatextanum er sett fram að bankastjórar skuli hafa reynslu og víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum efnahagsmálum.

Af hverju er verið að setja fram grein eins og þessa? Þessi grein felur í sér eitthvað sem allir mundu kannski halda að væri sjálfsagt mál og þyrfti ekki sérstaklega að vera að setja fram í lagatexta, þ.e. að auglýsa skuli opinber embætti og taka skuli fram í auglýsingu nákvæmlega um hvaða embætti er að ræða og hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda, þannig að allir þeir sem velti fyrir sér að sækja um þær stöður viti strax í upphafi hvaða mælistika það er sem á þá verður lögð og þeir geti gert sér grein fyrir möguleikum sínum til að hljóta það opinbera embætti sem verið er að auglýsa.

Segja má að þetta beri að einhverju leyti keim af öðru máli sem flutt hefur verið í sölum Alþingis um að faglega skuli staðið að ráðningu embættismanna. Rökin fyrir því að auglýsa skuli eftir og reyna að ráða þann hæfasta sem um sækir í stöðu seðlabankastjóra eru í raun þau sömu og í því máli. Segja má að ástæðan fyrir þessu sé sú að við erum náttúrlega ekkert að byrja með seðlabanka og velta fyrir okkur hvernig á að auglýsa í ný störf í einhverri nýrri stofnun. Við vitum náttúrlega hvernig þessi mál hafa gengið fyrir sig hvort sem það er í Seðlabanka Íslands eða öðrum opinberum stofnunum.

Á það hefur verið lögð mikil áhersla af öllum þeim sem um hafa fjallað, af sérfræðingum á þessu sviði, að mjög mikilvægt sé að fagleg fremur en pólitísk sjónarmið ráði því hverjir verði ráðnir bankastjórar. Við ættum í sjálfu sér ekki að þurfa að standa hér og velta upp svona eðlilegum og sjálfsögðum sannindum en reynslan segir okkur að oft og tíðum virðist eins og það sé pólitíkin sem ráði því hverjir eru ráðnir frekar en að menn velti fyrir sér að reyna að finna þann hæfasta og ráða hann.

Frá því að ný lög um Seðlabankann tóku gildi hafa tveir nýir bankastjórar verið skipaðir, eins og fram hefur komið. Sá fyrri í ágúst 2003 og sá seinni nú í september 2005, eins og allir vita. Þegar þessar tvær ráðningar eru skoðaðar hljóta menn að velta því upp að trúverðugleiki bankans sé að einhverju leyti í húfi, ímynd bankans og spurningar vakna um hvert sjálfstæði bankans er frá hinu pólitíska sviði. Er honum stjórnað á nægilega faglegum forsendum en ekki pólitískum? Ekki er óeðlilegt að slíkra spurninga sé spurt þegar horft er á hvernig ráðið hefur verið í Seðlabankann, ekki bara frá því að þessi nýju lög tóku gildi í sjálfu sér heldur langt aftur í tímann. Það voru margir sem bundu ákveðnar vonir við þessi nýju lög, að nú yrði breyting á ráðningum seðlabankastjóra, menn mundu fara að horfa meira á fagleg sjónarmið frekar en þau pólitísku. En það verður þó að segjast alveg eins og er að við sem horfðum á þessi nýju lög og vonuðumst til að þau mundu hafa þetta í för með sér, höfum orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum því ekki er að sjá að nein breyting sé þar á.

Við sem flytjum þetta frumvarp teljum líka að það sé í raun fullreynt hver vilji sé hjá núverandi stjórnarflokkum til að hverfa frá þessum pólitísku ráðningum. Tvær ráðningar hafa farið fram eftir að ný lög um Seðlabankann tóku gildi og ekki er að sjá að nokkur breyting hafi orðið á þeim mælistikum sem lagðar eru á þá sem fá þau störf. Ráðningar seðlabankastjóra virðast fylgja sama munstri og áður þrátt fyrir að hin nýju lög um bankann hafi gefið fyrirheit um annað. Þess vegna leggjum við til að í lagatexta verði sú kvöð lögð á að störf bankastjóra verði auglýst og að kröfur sem settar eru fyrir ráðningu liggi algjörlega á hreinu þannig að allir geti farið yfir það og borið síðan saman ef þeir vilja þegar búið er að ráða hvort ekki sé verið að ráða þann hæfasta einstakling sem um sækir.

Aðeins varðandi pólitískar eða faglegar ráðningar því við þurfum ekkert endilega að horfa eingöngu á Seðlabankann í því efni. Aftur og aftur koma upp umræður um það þegar verið er að ráða í æðstu stöður á vegum ríkisins, ráða embættismenn til starfa, að fagleg sjónarmið ráði ekki heldur geti pólitísk sjónarmið ráðið þar meiru. Við þurfum að komast út úr þessu. Bæði er þetta erfitt fyrir þá einstaklinga sem ráðnir eru og ekki síður fyrir þá sem ekki eru ráðnir en hafa jafnvel sótt um, sem telja sig hafa menntun, reynslu og þekkingu umfram aðra en ekki fengið starfið. Menn hafa rætt um ráðningar í Hæstarétt, menn hafa rætt um ráðningar fréttastjóra o.s.frv. Oftar en ekki vaknar sú umræða þegar ráðinn er embættismaður í æðstu stjórnunarstörf hjá ríkinu, hvort faglega hafi verið að verki staðið eða hvort pólitískur litur hafi ráðið þar meiru.

Það er mikilvægt fyrir okkur á þessum tíma eins og á öllum öðrum að engar efasemdir séu uppi um faglegt sjálfstæði og fagleg vinnubrögð í Seðlabanka Íslands. Það hvílir mikið á bankanum, sérstaklega þessi missirin þar sem hann virðist vera sá eini sem á að taka á til að halda verðbólgumarkmiðum ríkisstjórnarinnar. Ekki verður maður var við að ríkisstjórnin reyni að róa þar á sama borð og bankinn. Því er þeim mun mikilvægara að þetta sé gegnsætt ferli þegar kemur að ákvörðunum á stýrivaxtabreytingum eða öðrum ákvörðunum sem teknar eru um að beita þeim stýritækjum sem bankinn hefur í peningamálum.

Mikilvægt er að reyna að koma þessu í eins fast form og hægt er. Ég held að það frumvarp sem fyrir liggur varðandi peningastefnunefndina taki á þeim helstu annmörkum sem menn hafa séð fyrir sér að geti verið á þeim ákvörðunum sem þegar er verið að taka. Ef frumvarpið verður að lögum verður þetta ferli skipulegra, það verður gegnsærra og betra held ég fyrir alla þá sem eiga mikið undir þeim ákvörðunum sem þarna eru teknar, að sjá hvernig þær eru teknar og á hvaða forsendum.

Ég vona því að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu í efnahags- og viðskiptanefnd en hljóti ekki þau ömurlegu örlög sem flest frumvörp okkar stjórnarandstæðinga hljóta, að komast til nefndar og verða send til umsagnar en síðan jörðuð með lítilli viðhöfn og við sjáum þau ekki aftur. Auðvitað eigum við að geta tekið pólitíska umræðu um svona mál eins og þetta frumvarp, ekki bara 1. umr. hér í þingsal, heldur pólitíska umræðu strax við 1. umr. eins og við erum að gera núna, fá faglega og góða umfjöllun um frumvarpið í nefndinni, umsagnir frá þeim aðilum sem hafa hagsmuna að gæta varðandi þessa lagasetningu og reyna síðan að fá málið aftur inn til 2. umr. til að taka þroskaðri umræðu en hægt er að gera við 1. umr. þegar umsagnir og slíkt liggur fyrir. En ég sem tiltölulega nýr þingmaður er auðvitað löngu búinn að átta mig á því að þannig gerist það sjaldnast með þau frumvörp sem við stjórnarandstæðingar leggjum fram á þingi. Það verður í sjálfu sér að hafa það og brynja sig gagnvart því, en mikið væri skemmtilegra ef þessi vinnubrögð gætu breyst og orðið öðruvísi hér í þingsalnum á sama hátt og vinnubrögð við að ráða seðlabankastjóra gætu breyst ef þetta frumvarp yrði að lögum.