132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:15]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég verð fyrir miklum vonbrigðum með það vegna þess að menn komust til ráðs á síðasta vetri með þeim hætti að tveimur af þeim frumvörpum sem eiga hér hlut að máli og voru til umfjöllunar í þinginu var frestað, því hélt ég að menn fengju þessi málefni til heildstæðrar skoðunar núna. Það kom skýrt fram að nánast væri tilbúið frumvarp í umhverfisráðuneytinu um vatnsvernd. Lái mér hver sem vill en tilskipanir Evrópusambandsins, sem liggja að baki því sem þar á að vera, vil ég meina að geti haft áhrif á hvað menn ætli að gera á Íslandi í þessum efnum.

Ég tel undarlegt hve mikið mönnum liggur á í þessu máli þegar fyrir liggur, meira að segja í áliti þeirra sem sömdu frumvarpið, að engin sérstök vandamál hafi fylgt þeim lögum sem nú eru í gildi um þetta efni. Þess vegna er ósköp eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra eftir því hvað liggi á. Ég held satt að segja áfram að binda vonir við að menn skoði sig um í þessu og líka sérstaklega vegna þess að mikilvægustu stofnanir umhverfisráðuneytisins hafa bent mjög skýrt og ákveðið á vandamál sem fylgja þessari lagasetningu. (Iðnrh.: Þær eru allar sáttar við þetta.) Það kemur mér ákaflega mikið á óvart og við í iðnaðarnefnd munum örugglega þegar farið verður að fjalla um málið óska eftir að fá að heyra álit þeirra sem skrifuðu þessi álit fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar á þeim breytingum sem hafa verið gerðar á frumvarpinu, því ég get ekki séð með nokkru móti að komið sé til móts við þá gagnrýni sem kom fram í álitum þeirra á síðasta vetri. (MÁ: Það er kannski búið að reka þá núna.) Fyrir nú utan það að ég ætla að koma aðeins betur að því sem ég nefndi áðan um vatnið, þ.e. á vettvangi ESB.

Hér segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannkyns og alls lífríkis á jörðinni. Þessi hugsun er ráðandi í lagabálkum í nágrannalöndum okkar og kemur vel fram í vatnatilskipun ESB frá því árið 2000 sem segir efnislega að vatn sé ekki söluvara heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Nú er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB hér á landi í heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu vatns. Náttúrufræðistofnun leggst gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni séu lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.“

Ég spyr: Hvernig í ósköpunum geta menn sem skrifa svona verið búnir að samþykkja það núna að þetta sé bara allt í góðu lagi? Frumvarpið er ekki komið fram. Það er ekki einu sinni á málaskrá ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Ég tel þess vegna að ástæða sé til og við fáum sjálfsagt svör við því þegar nefndin fer að fjalla um málið hvort þessi sátt er þá komin og hvernig hún er til komin, hvort allt þetta sem við fengum frá þeim stofnunum sé þá tómur misskilningur því að gagnrýnin sem fólst í t.d. bréfi frá Umhverfisstofnun frá því 21. mars 2005 er mjög hörð og niðurstaðan er tekin saman í lok þessa bréfs.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun leggur til að:

texti og efni framlagðs frumvarps verði afmarkað og takmarkað við þann þátt vatnsnýtingar er snýr að orkunýtingu og beri heitið Lög um orkunýtingu vatns, og lög nr. 15/1923 haldi gildi sínu þar til vatnalög byggð á vatnatilskipuninni hafa tekið gildi, eða

frumvarpið verði unnið nánar og lagt fram að nýju með nútímalegri viðhorfum, eftir víðtækt samráð við þá sem málið varða. Það byggi á vatnatilskipuninni og fjalli um vatn í víðustu merkingu þess orðs.“

Er búið að gera þetta? Ekki held ég það. Ég get ekki séð að breytt hafi verið nokkrum sköpuðum hlut sem máli skiptir. Ég endurtek að fróðlegt verður að heyra í forstöðumönnum þessara stofnana ef þeir hafa gjörsamlega skipt um skoðun og rannsóknarefni hvernig slík umpólun getur átt sér stað, ef þannig er.

Ég er svolítið ráðvilltur í því hvað ég á að halda um þetta mál. Mér finnst einhvern veginn að okkur vanti skýringuna á því hvað rekur menn svona áfram í málinu. Hún hefur ekki komið fram að mínu viti. Það getur ekki verið af því að vatnalögin séu komin til ára sinna. Það hlýtur að vera eitthvað annað. Hæstv. iðnaðarráðherra vill greinilega ekki bíða eftir kollega sínum í umhverfisráðuneytinu með það verkefni sem hann hefur með höndum hvað þetta varðar. Skyldi það vera þannig að menn óttist að umræðan um málið geti tekið nýja stefnu ef menn þyrftu að fara yfir það frumvarp eins og það kemur til með að líta út? Ég bara spyr. Ekki veit ég það. En ég er á þeirri skoðun að hér sé um eitthvað að ræða sem við höfum ekki skilið enn þá.

Ég vil síðan nefna það, af því að hæstv. ráðherra svaraði í andsvari áðan að þetta frumvarp fjallaði um yfirborðsvatn. (Iðnrh.: Ég mismælti mig að það væri eignarréttur …) Hæstv. ráðherra, allir hafa leiðréttingu orða sinna og ég ætla því ekki að fjalla nánar um það. En ég ætla að vitna í 4. gr. frumvarpsins en þar stendur, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Ég held að það hversu víðtæk þau lög verða sem hér stendur til að setja eigi að verða til þess að menn fjalli mjög nákvæmlega um þetta mál og velti því mjög vel fyrir sér hvaða áhrif þetta getur haft á túlkanir laga og dómaframkvæmd. Ég get ekki sætt mig við að hæstv. ráðherra geri lítið úr áliti Lögmannafélagsins, því að laganefnd Lögmannafélagsins segir að það sé til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna að segja ekki afdráttarlaust að hér sé um formbreytingu að ræða.

Nú verður málið enn alvarlegra þegar hæstv. ráðherra vill ekki fallast á álit Lögmannafélagsins vegna þess að þá má túlka málið þannig að hæstv. ráðherra hafi aðra skoðun. Ekki kann ég að finna út úr því hvaða áhrif það getur haft á niðurstöður dóma en ég sé a.m.k. að það hljóti að vera ástæða til að nefndin fari yfir það með þeim sem þetta settu fram hvað þarna getur verið á ferðinni og hvort hægt er að ganga þannig frá málum, ef niðurstaðan verður sú að þetta gangi allt til enda, sem ég ætla satt að segja að vona að verði ekki, nema allt málið skili sér í hendur Alþingis í vetur þannig að menn geti fjallað um það í heild sinni og menn fái þá botn í hvað þetta geti þýtt þegar kemur til dómaframkvæmda.

Það er út af fyrir sig ekki ætlan mín að fara að ræða málið núna í einhverjum smáatriðum. Mér fannst fyrst og fremst ástæða til að rifja upp hvernig málið bar að á síðasta vetri. Ég sé að ýmsar af þeim athugasemdum sem ég gerði við málið, sem ég ætla ekki að fara yfir hér, þar sem mér fannst vera óskýrt að orðið kveðið í hinum ýmsu lagagreinum, hafa ekki borið neinn árangur. Mér finnst ekki ástæða til að fara yfir þá hluti hér, ég mun gera það í nefndinni. Ég tel að full ástæða sé til að fá að nýju umsagnir þeirra aðila sem komu að því að gefa umsagnir um málið mál. Ég tel einnig fulla ástæðu til að kalla eftir þeirri stöðu og yfirferð á því hvernig málið stendur í umhverfisráðuneytinu hvað varðar það lagafrumvarp sem þar er á ferðinni og að nefndin fái að sjá hvað stendur í því frumvarpi eða þeim frumvarpsdrögum, því að þar liggja fyrir drög og ég efast ekki um að það sé satt, það getur því verið nefndinni til hjálpar að skoða það. En fyrst og fremst held ég að krafan hljóti að verða sú að menn fái að fást við þetta mál í heild sinni. Sú krafa hlýtur að ná fram að ganga að mínu viti vegna þess að ef hún á ekki að gera það þá þurfa menn að færa fram fyrir því mjög sterk rök hvað það er sem er svona nauðsynlegt í því að þetta mál gangi fram áður en menn ljúka umfjöllun um þá hluti sem ég hef verið að tala um og eru í frumvarpinu sem umhverfisráðuneytið er með á sínum borðum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna, hæstv. forseti, en ég ber þá von í brjósti að okkur takist að fá að tala um þetta mál í heild sinni.