132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:49]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er dálítið hissa á þessari fundarstjórn. Við ræðum hér um mál sem heyrir undir iðnaðarráðherra og það var búið að segja mér að fundurinn yrði til klukkan sjö. En þá koma þingmenn og biðja um annan ráðherra sem málið heyrir ekki undir. En af því að hann getur ekki komið þá ákveður forseti að fresta fundinum.

Þetta finnst mér ekki vera rétt fundarstjórn. Það hefði augljóslega verið hægt að halda áfram með þessa umræðu. Hv. þingmenn hafa talað um að samráð þurfi milli þessara tveggja ráðuneyta og ráðherra. Það samráð hefur farið fram enda hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu, eins og allir geta séð, frá því í vor. Í einni greininni er meira að segja ákvæði þess efnis að til að breyta reglugerð þurfi að bera þá breytingartillögu undir umhverfisráðuneytið, sem er mjög sérstakt í lagasetningu.

En hv. þingmenn hafa greinilega ekki kynnt sér málið nægilega vel og halda að þetta sé sama frumvarpið og var lagt fram í vor, sem er að sjálfsögðu ekki. Ég tel því að halda hefði átt áfram með þessa umræðu.