132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

37. mál
[19:23]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem bara upp í ræðustól örstutt. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði ágæta grein fyrir þessu máli. Mig langaði aðeins til að vekja athygli á því að þetta mál, nái það fram að ganga, mun gagnast mjög vel fólki sem þarf að leggja í kostnað vegna töluverðra ferðalaga til og frá vinnustað. Mig langaði til að koma að því að það verður sífellt algengara að fólk fari þó nokkurn veg til og frá vinnu eftir því sem samgöngur batna, eftir því sem farartækin verða betri, þ.e. bílarnir, og jafnvel önnur farartæki. Það verður því sífellt algengara að fólk sæki langan veg til vinnu. Til að mynda sækir fólk sem býr fyrir austan fjall, sem kallað er, vinnuna á höfuðborgarsvæðið eða öfugt, fólk sem býr á Suðurnesjum sækir vinnu til höfuðborgarsvæðisins eða öfugt og fólk sem býr norðan Hvalfjarðar sækir vinnu til höfuðborgarsvæðisins eða öfugt.

Hið sama má líka segja um aðra landshluta svo sem Vestfirði. Við getum nefnt staði eins og Eyjafjarðarsvæðið, byggðirnar þar í kring. Við getum talað um Miðausturland þar sem mikil uppbygging á sér stað. Fólkið býr kannski niðri á fjörðum og sækir vinnu upp á Hérað eða öfugt. Við getum líka talað um fólk á Suðurlandsundirlendinu, á Suðurlandi, á Höfn, Klaustri, jafnvel í Vestmannaeyjum.

Virðulegi forseti. Ég hygg að þetta frumvarp mundi gagnast öllu þessu fólki allt í kringum landið mjög vel mörgu hverju því eins og ég sagði í upphafi máls míns þá verður sífellt algengara að fólk sæki langan veg til og frá vinnu. Þetta ætti því að verða kærkomin búbót fyrir það fólk.

Ég hef sjálfur reynslu af svona reglum. Ég bjó sjálfur í Noregi um margra ára skeið og þar voru og eru svona skattareglur í gildi. Ég leyfi mér að fullyrða eftir að hafa reynt það sjálfur að þessar reglur eru bæði sanngjarnar og það er ekki mikið mál að koma þessu þannig fyrir að þetta sé framkvæmanlegt. Þetta er virkilega góð kjarabót fyrir hinn almenna launamann og mundi því að mínu mati vera skynsamleg ráðstöfun í skattalegu tilliti.