132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu.

175. mál
[15:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil bæði lýsa ánægju og vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi er ánægjulegt og gott til þess að vita að hæstv. ráðherra skuli jafnmeðvitaður um þetta mál og raun ber vitni. Auðvitað er alveg nauðsynlegt að hún gangi fram fyrir skjöldu og haldi norrænum ráðherrum við efnið í þessu máli. Þar eigum við slíkra hagsmuna að gæta að það er ekki óeðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra Íslands haldi norrænum umhverfisráðherrum vel við efnið. Ég tek því undir þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, að mikilvægt sé að komið verði í veg fyrir að Svíar flytji kjarnorkuúrgang til Sellafield.

Dounreay-stöðinni hefur verkið lokað, segir hæstv. ráðherra. Það er fagnaðarefni en það er náttúrlega hroðalegt að þurfa að viðurkenna það og fá að vita að fyrst árið 2036 sé gert ráð fyrir að frágangi og hreinsun á verksmiðjulóðinni verði lokið. Þetta segir okkur hvílík skaðræðisefni er um að ræða, sem fara út í náttúruna. Því til staðfestingar má geta þess að helmingunartími teknesíum-99 í náttúrunni mun vera um 213 þúsund ár. Þetta er svo gríðarlega stórt vandamál að við megum ekki slaka á klónni í þessum efnum. Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál á hinu háa Alþingi, helst á hverjum einasta vetri af mikilli alvöru svo að ráðherrar og ríkisstjórnir nágrannalandanna, ekki síst í Bretlandi, sjái að okkur er mikil alvara. Skýrslu breskra stjórnvalda hefur ekki verið lokið og það er ámælisvert. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra haldi breskum yfirvöldum við efnið hvað það varðar.

Að lokum ein örstutt athugasemd. Ég hef fjallað um teknesíum-99 en tek hins vegar eftir því að Geislavarnir og hæstv. umhverfisráðherra eru farin að kalla efnið öðru nafni, teknetín-99. Ég er ekki vel að mér í efnafræði en það mætti kannski skýra fyrir áhugasömum hvað er að gerast.