132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Stofnanir fyrir aldraða.

111. mál
[19:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmönnum fyrir prýðilega umræðu um þetta mikilvæga mál. Það hefur komið glöggt í ljós við umræðuna að hér er um að ræða málaflokk sem þarf að ná utan um. 87, upplýsir ráðherra, af þeim sem þjást af minnissjúkdómum, alzheimer, eru vistaðir á stofnunum fyrir aldraða og þá burt séð frá því hve margir eru í heimahúsum. Vandinn er augljóslega stór og mikill og það þarf að taka utan um hann og byggja utan um þá þjónustu sem til þarf.

Úrræði þurfa að vera til staðar fyrir þessa einstaklinga á fleiri stöðum en bara í Reykjavík og á Akureyri, á öðrum stærri þéttbýlisstöðum á landinu, sambýli þar sem fólk fær að halda virðingu sinni og komið er til móts við þær sérþarfir sem minnisveiki eða heilabilun krefst, hvíldarpláss líka. Það er ekki síst vegna maka og ættingja sem bera mikla ábyrgð þegar einstaklingur með heilabilun býr á heimilinu og gerir það að sjálfsögðu mjög þungt og erfitt oft og tíðum. Síðast en ekki síst þarf sérfræðiþjónustu með fræðslu og ráðgjöf fyrir sjúklinga, aðstandendur og aðra sem koma að lífi einstaklinga sem þjást af þessum alvarlega og hryllilega sjúkdómi.

Að sjálfsögðu þurfum við að byggja upp umhverfi með deildum sem eru sérsniðnar að þörfum þessa hóps þar sem búið er vel að honum og þar sem einstaklingarnir vistast ekki með, nema í undantekningartilfellum, fólki sem er áratugum eldra og býr á öldrunarstofnun þess vegna.

Vonandi verður umræðan og sú uppbygging sem fyrirhuguð er til þess að málið komist á skrið. Allt bendir til þess að svo verði miðað við þær undirtektir sem málið fær hjá hv. þingmönnum.