132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Um margt mælist hv. 10 þm. Norðvest. vel þótt hann hafi ekki svarað vörn minni fyrir vatnslegið. En hann hefur að mörgu leyti rétt fyrir sér, þegar maður fer að skoða þetta nánar. Hér er t.d. skilgreining á „rennsli“, sem er svona, með leyfi forseta:

„Hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.“

Það má auðvitað segja að við fyrstu sýn slær þetta mann nokkuð vel, að rennsli sé hreyfing vatns, hvort sem það rennur sjálft sökum þyngdaraflsins eða að menn eru á bak við það. En þá verður manni á að spyrja: Bíðum við, hreyfing vatns, er það líka gos í hver? Er það rennsli? Ég veit ekki hvort hæstv. iðnaðarráðherra hefur spekúlerað í því, en þessu má hv. þingmaður ekki gleyma í gagnrýni sinni á orðalagið í frumvarpinu.

Og t.d. þegar menn dæla upp vatni af einum stað á annan, er það þá rennsli líka? Það væri frekar óvenjuleg notkun á orðinu „rennsli“. Það þarf kannski að fara í gegnum allt þetta frumvarp þegar hæstv. iðnaðarráðherra hefur látið það okkur eftir að taka það aftur til sín upp í ráðuneyti, lesa það í gegn og athuga hvort þetta geti valdið misskilningi, en við því var einmitt sérstaklega varað í áliti laganefndar Lögmannafélagsins. Iðnaðarráðherra kaus að fara að ábendingum þeirra á einum stað en ekki á öðrum. Þannig að hafi verið ruglingur á túlkun greinargerðarinnar áður er hann enn þá meiri eftir að iðnaðarráðherra fór með blýantinn í frumvarpið.