132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

48. mál
[19:00]
Hlusta

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að þingmaðurinn skyldi nefna að frumvarpið hafi verið flutt í fyrra, hér um bil upp á dag. Það undirstrikar að við þingmenn reynum að koma þingmálum sem okkur finnast mikilvæg inn eins fljótt og unnt er, eftir að þing kemur saman 1. október. Þeim sem koma eitthvað seinna inn, það þarf ekki að vera seinna en 15.–20. október fáum við yfirleitt ekki að mæla fyrir fyrr en einhvern tíma á vorþingi.

Ég vil taka fram að í persónulegum samtölum við þingmenn fæ ég mjög góðar undirtektir við þetta frumvarp þótt það hafi ekki fengist afgreitt. En nú bind ég miklar vonir við orð hæstv. forseta Alþingis, Sólveigar Pétursdóttur, um að hún vilji skoða starfshætti Alþingis. Ég er bjartsýnni en áður á að e.t.v. séu betri tímar í nánd.

Það vill svo til að við Guðjón Arnar Kristjánsson erum sveitungar frá Ísafirði og uxum þar bæði vaxið úr grasi. Ég þekki Vestfirðina afskaplega vel, geri mér góða grein fyrir því hve mismunandi kjördæmin eru og stóru kjördæmin seinfarin og þung yfirferðar. Ég er sannfærð um að betra væri að hafa oftar kjördæmavikur. Þá þyrfti heldur ekki að taka inn varamenn, þótt ég beri fulla virðingu fyrir því sjónarmiði sem hv. þingmaður setti fram. Það er affarasælla að vinnulag okkar sé þannig að við störfum yfir árið og fáum hlé til að fara í kjördæmin og þá oftar á þeim tíma sem helst er hægt að ná til fólksins, líka í stórum og þungfærum kjördæmum.