132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki upplýst um það hvort Bandaríkjamenn kynnu að hafa fundið sér leyfi til þeirra flutninga sem hér um ræðir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stuðning við stríðið í Írak vegna þess að þeir flutningar að mestu, sem menn grunar að fram hafi farið, eru í beinum tengslum við styrjöldina í Írak sem íslensk stjórnvöld styðja, þar á meðal hæstv. utanríkisráðherra. Yfirlýsing stjórnvalda á sínum tíma var þannig orðuð að auðvelt er fyrir Bandaríkjamenn að túlka hana sem framlag Íslands með öllum hætti og þar á meðal þeim sem hér er um að ræða.

Forseti. Fyrir 30 árum var líka utanríkisráðherra á Íslandi sem hét Geir. Hann hét Geir Hallgrímsson. Hann lýsti því yfir í umræðum um kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli að íslensk stjórnvöld og Íslendingar allir vildu ekki slík vopn. Nú á sá utanríkisráðherra sem starfar á okkar tímum og heitir líka Geir að lýsa því yfir að íslensk stjórnvöld og Íslendingar vilji ekki fangaflutninga eða bandalag við þjóðir sem ekki virða mannréttindi.