132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:17]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst það grátbrosleg staðreynd að til þurfti þessa fyrirspurn frá stjórnarandstöðuþingmanni til að íslenska ríkisstjórnin brygðist við og færi að spyrja Bandaríkjamenn erfiðra spurninga í þessu máli. Það er nefnilega þannig að þeir sem fylgjast með fréttum af alþjóðamálum vita ósköp vel að lengi hefur verið uppi grunur um að Bandaríkjamenn væru að flytja fanga yfir hafið, m.a. um íslenska lofthelgi, á vit pyndingaböðla í ónefndum fangelsum í löndum sem okkur eru framandi. Þetta þurfti ekki að koma neinum á óvart. Hér eru menn að sjálfsögðu að uppskera eins og þeir hafa sáð til, menn sem upphaflega studdu hina glæpsamlegu innrás í Írak sem efnt var til á grundvelli upploginna saka, styrjaldar sem kostað hefur tugi þúsunda borgara, saklausra borgara lífið. Enn þá fleira fólk býr nú við ævarandi örkuml, að ekki sé talað um þau andlegu sár sem orðið hafa á íröksku þjóðinni. Þessir menn eiga að skammast sín.