132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Afleiðingar hlýnunar og viðbrögð við þeim.

156. mál
[18:11]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil líka láta þess getið að fjórða skýrsla milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar er væntanleg árið 2007 en í henni verða dregnar saman helstu niðurstöður af rannsóknum á loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra á síðustu árum. Sú samantekt verður lögð til grundvallar frekari stefnumótunar á alþjóðavísu í loftslagsmálum sem fram fer innan ramma loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Það kann að vera tilefni til að uppfæra skýrsluna um veðurfarsbreytingar og afleiðingar þeirra á Íslandi í tengslum við útgáfu þeirrar skýrslu og mun umhverfisráðuneytið skoða þann möguleika á næsta ári í samráði við þær stofnanir og vísindamenn sem búa yfir mestri þekkingu á loftslagsbreytingum.

Þetta eru vissulega brennandi mál og ég tek undir með hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur að það er greinilega mjög mikill áhugi meðal þeirra þjóða sem liggja að norðurskautinu á t.d. bæði flutningum og olíu- og gasvinnslu. Því er mjög brýnt að leggja áherslu á norræna samstarfið í þessu sambandi og þar eru menn mjög vakandi í þessum efnum. Einnig eigum við mjög gott samstarf við þjóðirnar sem eru þátttakendur í Norðurskautsráðinu. Ég held að óhætt sé að segja að þarna geti verið mjög stórir hagsmunir. Deilur t.d. Dana og Kanadamanna síðla sumars og í haust um Hanseyju sýna glögglega að þessi lönd sjá mörg tækifæri í opnun þessa hafsvæðis og vilja tryggja þau.

Ég þakka þingmanninum fyrir að vekja máls á þessu efni.