132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er engu nær eftir þetta svar. Nema mér sýnist sem svo að hver höndin sé upp á móti annarri innan Framsóknarflokksins um hvort flokkurinn eigi að sækjast eftir því að Ísland fari í Evrópusambandið eða ekki. Það kemur svo sem ekkert á óvart að illdeilur séu uppi innan Framsóknarflokksins. En það er þeirra vandamál.

Hins vegar svaraði hv. þingmaður ekki spurningu minni hvort hún væri persónulega þeirrar skoðunar að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið. Hv. þingmaður talaði um að hún teldi næsta víst að við gætum náð einhverjum sérstökum samningi við Evrópusambandið í fiskveiðimálum og þjóðir innan Evrópusambandsins hefðu enga hagsmuni af því að sækjast eftir neinum ítökum í lögsögunni hér við land. Þetta er algjör fásinna. Þetta er alveg út í hött. Veit þingmaðurinn ekki að Spánverjar og Portúgalar fara um Norður-Atlantshaf logandi ljósi? Leitandi logandi ljósi að fiskveiðiréttindum. Þeir hafa ítrekað reynt að brjótast inn í Norðursjó og hirða þar fiskveiðiréttindi af Bretum og Skotum og hefur gengið þokkalega í þeim ásetningi sínum. Spænsk útgerð ætlar í málaferli núna við Norðmenn út af fiskveiðiréttindum á Svalbarðasvæðinu. Þetta eru hlutir sem eru að gerast núna. Að sjálfsögðu munu Spánverjar, Portúgalar, Bretar, Skotar, allar þessar þjóðar vantar fisk í dag, vantar fiskveiðiréttindi vegna þess að fiskveiðistefna Evrópusambandsins hefur leitt af sér hrun fiskstofna, ekki síst í Norðursjó en líka víðar, þar sem Evrópusambandið hefur haft fiskveiðiréttindi.

Slík fiskveiðistefna verður innleidd hér á landi líka, þessi svokallaða sameiginlega fiskveiðistefna sem engu hefur skilað nema hörmungum. Ég er alveg sannfærður um að Spánverjar, Portúgalar, Bretar, Skotar, Þjóðverjar, jafnvel Frakkar, munu að sjálfsögðu reyna að brjótast inn í þá gullkistu sem við Íslendingar eigum þó sjálfir þó við deilum um hana hér innbyrðis. En við skulum ekki gleyma því að það erum við sem höfum umráðaréttinn yfir henni í dag og svo skal vera áfram.