132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[15:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýravernd sem varðar aðeins eitt tiltekið afmarkað atriði, þ.e. tilraunir á dýrum og bann við því að nota lifandi dýr við prófun á snyrtivörum. Um er að ræða innleiðingu á tilskipun, eins og hæstv. umhverfisráðherra gat um í máli sínu.

Ég vil af þessu tilefni lýsa yfir verulegum áhyggjum vegna stöðu dýraverndarmála almennt í landinu. Ég hef vikið að því áður í þessum ræðustól að það er löngu orðið tímabært að taka upp lagaákvæði um dýravernd í heild sinni. Hæstv. umhverfisráðherra er fullkunnugt um þær kröfur dýraverndarráðs um að það verði gert. Allri umhverfisnefnd Alþingis er verulega vel kunnugt um að fókus vanti í dýraverndarmálin og að fjármuni vanti til að sinna þeim svo vel sé enda vitum við líka að málaflokkurinn er tvískiptur. Að hluta til heyrir hann undir Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið en að öðru leyti heyrir hann undir búfjárlög og þar af leiðandi landbúnaðarráðuneytið.

Ég lýsi því yfir, frú forseti, að málaflokkurinn allur þarfnast endurskoðunar og það sem heyrir undir hæstv. umhverfisráðherra í þeim efnum. Ég hefði því viljað sjá hæstv. ráðherra flytja efnismikið frumvarp um úrbætur í málaflokknum í heild sinni. Mér finnst það til vansa fyrir stjórnvöld að vera stöðugt að koma upp með frumvörp sem eingöngu byggja á tilskipunum Evrópusambandsins. Það mætti stundum halda að ráðherrarnir í ríkisstjórninni hefðu ekki sjálfstæðan vilja. Því spyr ég hæstv. umhverfisráðherra: Finnst henni þetta nægja í dýraverndarmálum í dag að innleiða þetta bann sem ég að sjálfsögðu er hjartanlega fylgjandi? En ég hefði viljað sjá miklu öflugra frumvarp á ferðinni frá hæstv. umhverfisráðherra og kalla eftir því að hún fari að sinna þeim málum eða segja a.m.k. þingheimi hvar endurskoðun á dýraverndarlögum er stödd.

Varðandi það afmarkaða atriði sem hér er til umfjöllunar er ég hjartanlega sammála því að setja eigi svona bann. Í sjálfu sér hefði það átt að vera komið í lög fyrir áratug eða tveim því að það þekkja allir að saga neytendasamtaka og ýmissa frjálsra félagasamtaka sem hafa barist gegn tilraunum á dýrum í þessu skyni er orðin nokkuð löng. Fólk hefur gengið kröftuga píslargöngu í þeim efnum og sú ganga hefur vissulega skilað gríðarlegum árangri á seinni árum. Sennilega er þetta síðasta skrefið til að reyna að koma í veg fyrir tilraunir af þessu tagi.

Við þekkjum síðan öll sögurnar um grimma og guðlausa meðferð á skepnum sem Ólafur Kárason ljósvíkingur í Ljósi heimsins fræddist um þegar Magnína var að reyna að kenna honum að lesa en þar talaði hann um „111 meðferð“ á skepnum sem Magnína samþykkti að væri grimm og guðlaus meðferð. Illa meðferð á skepnum er auðvitað rétt að reyna að koma í veg fyrir og banna eftir því sem mögulegt er í lögum og reglum en ég er sannfærð um að taka þarf verulega vel á í þessum málaflokki til að við getum talað um að hér megi vel við una og að hér á landi sé þannig búið að dýrum í heild sinni að sómi sé að.