132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[14:04]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Mér finnst betra að hafa það sem sannara reynist og oftast er það nú svo. Hv. þingmaður talaði um árslaun viðkomandi sem væru á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Við erum auðvitað ekki að tala um árslaun, við erum að tala um vasapeninga sem ná þessari fjárhæð. Við erum eingöngu að tala um þessa fjárhæð í vasapeninga sem lágmark vegna þess að það eru einungis þeir sem hafa engar tekjur aðrar en frá almannatryggingum sem eru með þessa fjárhæð, aðrir eru með meira. Eins og fram kom á fundi í heilbrigðis- og trygginganefnd í morgun eru þeir ekki nema 1% aldraðra eftir því sem samtök aldraðra sögðu okkur. (Gripið fram í.) Það eru einungis þeir sem eru með þessa fjárhæð.

Hins vegar vil ég halda því til haga að þetta fyrirkomulag hefur farið fyrir brjóstið á mörgum, en ég vil líka benda á að margt fólk á hjúkrunarheimilum kysi þetta fyrirkomulag ef það væri valkvætt, vegna þess að fólk er ekki á hjúkrunarheimilum út af engu. (Forseti hringir.) Margt af því fólki er ekki fært um að annast eigin fjármál og þyrfti að treysta á aðstandendur sína um að annast fjármálin ef þetta fyrirkomulag væri ekki fyrir hendi.